Úrskurðir í ferðamálum

X tók á leigu bíl hjá F en eftir að hafa ekið bílnum í ellefu daga og yfir 2.000 km kom fram olíuleki og áætlaður viðgerðarkostnaður var hátt í 1200 þúsund kr. Meirihluti nefndarinnar taldi deilu aðila snúast um hvort X hefði valdið tjóninu, þ.e. hefði orðið fyrir einhvers konar óhappi meðan á leigutíma stóð og bæri að greiða bætur vegna þess. Taldi meirihlutinn svo vera en lækkaði kröfu F þó nokkuð, t.a.m. þar eð vsk. af fjárhæðinni væri ekki hluti tjónsins. Jafnframt var krafa F lækkuð þar eð ýmislegt væri aðfinnsluvert við afgreiðslu málsins af hálfu fyrirtækisins. Var X því gert að greiða rúmlega 600 þúsund kr. Einn nefndarmanna skilaði þó sératkvæði og vildi vísa málinu frá þar eð krafa F hefði ekki komið nægilega skýrt fram á fyrri stigum og ágreiningurinn fyrir nefndinni snerist aðeins um sjálfsábyrgð vegna kaskótryggingar. Þar sem ljóst væri að tjónið væri ekki bótaskylt samkvæmt kaskótryggingu væru svo í raun engir hagsmunir af því að fá skorið úr þeirri kröfu. 

A keypti alferð fyrir tvo af heimasíðu X. Eftir að kaupin höfðu gengið í gegn kom í ljós að um mistök í bókunarkerfi hafði verið að ræða og A verið seldar ferðirnar á mun hagstæðara verði en þær áttu að kosta. Nefndin úrskurðaði að bindandi samningur hefði verið kominn á og X bæri að afhenda ferðina á því verði sem þegar hafði verið greitt.

X pantaði og greiddi fyrir alferð á vegum F. Hann þurfti þó að afpanta ferðina vegna veikinda og urðu deilur um það hve mikla endurgreiðslu hann ætti að fá frá ferðaskrifstofunni.

Í skilmálum ferðaskrifstofunnar sagði að a.m.k. 50% af verði ferðar væru óafturkræf ef ferð væri afpöntuð með svo skömmum fyrirvara. X taldi sig eiga rétt á 50% endurgreiðslu en ferðaskrifstofan hafnaði allri endurgreiðslu. Nefndin leit svo á að skilmálar ferðaskrifstofunnar kvæðu ekki á um rétt til 50% endurgreiðslu og að F ætti rétt á greiðslu vegna þess kostnaðar sem sýnt væri fram á að ferðaskrifstofan hefði orðið fyrir. Var því talið rétt að X greiddi þann kostnað sem F varð fyrir vegna afpöntunarinnar en að F skyldi endurgreiða honum afganginn.
 

Sóknaraðilar, A, B, C og D keyptu sér alferð með F. Skömmu fyrir brottför fengu þau að vita að ekki yrði gist á því fjögurra stjörnu hóteli sem þau pöntuðu upphaflega heldur á fimm stjörnu hóteli. Sóknaraðilar gerðu ýmsar athugasemdir við aðbúnaðinn á síðarnefnda hótelinu, gardínur á herbergjum hafi hangið lausar, baðkar verið stíflað, erfitt að opna og loka hurðum o.s.frv. Nefndin gerði nokkrar athugasemdir við málatilbúnað bæði sóknaraðila og ferðaskrifstofunnar og rakti að auki viðeigandi lagaákvæði. Nefndin féllst svo á að ágallar á aðbúnaði hótelsins hefðu valdið sóknaraðilum einhverjum óþægindum og ákvarðaði þeim 12.000 kr. afslátt vegna þess.

A og B keyptu sér alferð með F. Vegna fyrirhugaðs verkfalls flugvirkja var heimfluginu flýtt og ferð  þeirra styttist því um eina nótt auk þess sem ferðaáætlun raskaðist eitthvað. Nefndin rakti viðeigandi lagaákvæði og taldi sóknaraðila eiga rétt á afslætti þar sem ferðin hefði ekki verið í samræmi við samning aðila. Þótti hann hæfilega metinn 17.500 kr. fyrir hvorn sóknaraðila.

A fór með eiginmanni sínum í tveggja vikna alferð á vegum F. A var mjög ósátt við hótelherbergið sem þau dvöldu í seinni vikuna og taldi það í engu samræmi við kynningar F á hótelinu. F hafði boðið A og fjölskyldu hennar 50.000 kr. inneign í leiguflug en A féllst ekki á það og vildi endurgreiðslu á gistingunni og leitaði því til nefndarinnar. Nefndin taldi að hótelherberginu og kynningu á því hefði verið ábótavant og taldi að  F bæri að gefa A afslátt af verði ferðarinnar, í formi endurgreiðslu að upphæð 50.000 kr.

A fór með eiginmanni sínum og dóttur í alferð á vegum F. A var mjög ósátt við hótelherbergi það sem fjölskyldunni var úthlutað og taldi það í engu samræmi við kynningar F á hótelinu. F hafði boðið A og fjölskyldu hennar 50.000 kr. inneign í leiguflug en A féllst ekki á það og vildi endurgreiðslu á ferðinni og leitaði því til nefndarinnar. Nefndin taldi að hótelherberginu og kynningu á því hefði verið ábótavant og taldi að  F bæri að gefa A afslátt af verði ferðarinnar, í formi endurgreiðslu að upphæð 50.000 kr. Jafnframt skyldi F endurgreiða A 280 evrur, eða þann kostnað sem hún varð fyrir við að flytja sig í annað herbergi

Sóknaraðilar keyptu alferðir af heimasíðu ferðaskrifstofu en síðar kom í ljós að ferðaskrifstofan hafði, vegna villu í bókunarvél, einungis selt þeim hótelgistingu.  Sóknaraðilar fóru fram á að fá samskonar alferðir á því verði sem greitt var en varnaraðili hafnaði því. Nefndin rakti viðeigandi lagaákvæði og fordæmi og komst að því að kominn væri á bindandi samningur um kaup ferðanna. Var ferðaskrifstofunni því gert að afhenda sóknaraðilum sambærilegar ferðir á sama verði og þau keyptu hinar umdeildu ferðir á.

A, B, C, D, E og F keyptu sér tveggja vikna alferð hjá X. Um mánuði fyrir brottför kom þó í ljós að flugi þeirra mundi seinka og svo fór að lokum að ekki var lent á áfangastað fyrr en um átta klukkustundum eftir upphaflega áætlaðan lendingartíma. A, B, C, D, E og F leituðu því til nefndarinnar og fóru fram á afslátt af verði ferðarinnar.  Nefndin rakti í áliti sínu ýmsar lagareglur sem til skoðunar komu við úrlausn málsins. Niðurstaðan varð sú að X bæri að greiða aðilum samtals 24.000 kr. Var þá aðallega litið til þess að þeir gátu ekki nýtt sér kvöldmat á hótelinu á komudegi, en fæði var innifalið í verði ferðarinnar. Loks var það álit nefndarinnar að í sjálfu sér hefði F verið heimilt að breyta flugáætlun með þessum hætti en hins vegar gætti nokkrar óvissu um hugsanlegan bótarétt farþega sakir þess. Hins vegar þótti það ekki tæk niðurstaða að ferðaskrifstofan gæti breytt og stytt ferðir án þess að nokkur afsláttur kæmi á móti.

X og Y keyptu sér tveggja vikna alferð hjá F. Um mánuði fyrir brottför kom þó í ljós að flugi þeirra mundi seinka og svo fór að lokum að ekki var lent á áfangastað fyrr en um átta klukkustundum eftir upphaflega áætlaðan lendingartíma. X og Y leituðu því til nefndarinnar og fóru fram á að fá hálfan dag ferðarinnar (1/28 hluta) endurgreiddan, eða 16.031 kr. Nefndin rakti í áliti sínu ýmsar lagareglur sem til skoðunar komu við úrlausn málsins. Niðurstaðan varð sú að F bæri að greiða X og Y 8.000 kr. Var þá aðallega litið til þess að X og Y gátu ekki nýtt sér kvöldmat á hótelinu á komudegi, en fæði var innifalið í verði ferðarinnar. Hins vegar var litið til þess að ekki varð séð að þau X og Y hefðu kvartað yfir breytingum á ferðatilhögun fyrr en eftir að heim var komið. Loks var það álit nefndarinnar að í sjálfu sér hefði F verið heimilt að breyta flugáætlun með þessum hætti en hins vegar gætti nokkrar óvissu um hugsanlegan bótarétt farþega sakir þess.

Sættir náðust áður en málið kom til úrlausnar nefndarinnar

Sættir náðust áður en málið kom til úrlausnar nefndarinnar.

X keypti alferð af ferðaskrifstofunni F.  X varð svo fyrir því að slasast þegar sófi í hótelíbúð hans brotnaði og hann rak höfuðið við það í vegginn. Varð X fyrir einhverjum óþægindum vegna þessa og þurfti meðal annars að forðast sterkt sólarljós vegna höfuðhöggsins. Nefndin taldi að alferðinni hefði verið ábótavant að því leyti að sófinn í íbúð X hefði ekki verið nægilega traustur. Nefndin áleit því að F ætti að veita X afslátt, 15.000 kr., auk þess að greiða beinan kostnað X vegna óhappsins.

X tók þátt í netuppboði á vegum ferðaskrifstofunnar F og taldi sig hafa átt hæsta boð, en um var að ræða boð í tvö flugsæti. F hélt því hins vegar fram að boð X í sætin hefði aldrei borist sér og seldi því öðrum aðila, sem átti lægra tilboð, sætin. X kvartaði vegna þessa og krafðist þess að fá mismunin á verði flugsætanna og því verði sem hann bauð í þau, endurgreiddan, enda væri það tjónið sem hann hefði orðið fyrir vegna þessa. Ef ekki yrði fallist á það vildi hann fá sams konar flugferð og um hefði verið að ræða gegn greiðslu þeirrar upphæðar sem hann bauð, eða 7.000 kr. vegna hvors sætis. Nefndin taldi ekki sýnt fram á að X hefði orðið fyrir svo miklu tjóni sem hann hélt fram en hins vegar hefði hann átt hæsta tilboðið í sætin og bæri F því að standa við uppboðsskilmálana gagnvart X.
Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að varnaraðili, F, ætti að afhenda X tvö flugsæti með sambærilegum skilmálum og um var að ræða í uppboðinu gegn því að hann greiddi 7.000 kr. fyrir hvort sæti.

Kvörtun vegna aðbúnaðar á hóteli
Sóknaraðilar, X og Y, fóru í alferð með tveimur dætrum sínum á vegum varnaraðila F. Sóknaraðilar töldu ýmsu ábótavant á hótelinu sem þeir gistu á, meðal annars hefði sjaldan verið þrifið og sundlaugargarður verið sóðalegur og ólæti annarra gesta hefðu truflað dvöl sóknaraðila í garðinum, þjónusta á veitingastað hefði gengið hægt og internettenging verið biluð. Þá hefðu silfurskottur verið í íbúðinni. Kröfðust sóknaraðilar fullrar endurgreiðslu á ferðinni vegna þessa. Nefndin taldi að ýmis þeirra atriða sem sóknaraðilar kvörtuðu yfir ættu ekki að leiða til afsláttar og jafnframt var litið til þess að ekki var kvartað við fararstjóra strax og gallarnir komu í ljós.  Nefndin taldi þó að ekki væri alfarið hægt að líta framhjá því að sóknaraðilar hefðu kvartað við fararstjóra, jafnvel þó nokkuð hefði verið liðið á ferðina þegar þau báru fram kvörtun sína. Hins vegar hefði ekki náðst að bæta úr þeim ágöllum sem á íbúðinni voru. Ákvarðaði nefndin sóknaraðilum því afslátt, kr. 12.000.

Pages