Ályktun stjórnar Neytendasamtakanna um samráð olíufélaganna

Föstudagur, 5. nóvember 2004

Samþykkt á fundi stjórnar 4. nóvember 2004.

Stjórn Neytendasamtakanna fordæmir samráð olíufélaganna og lýsir fullri ábyrgð á hendur þeim vegna þess tjóns sem þau hafa valdið neytendum. Einnig krefst stjórn Neytendasamtakanna þess að olíufélögunum verði gert að skila þeim ávinningi sem þau hafa haft af ólögmætri starfsemi sinni og að þeir sem sekir eru í þessu máli verði látnir bera ábyrgð samkvæmt lögum.

Stjórnin minnir á að tjón neytenda er mikið. Auk hagnaðar olíufélaganna af ólögmætu samráði, sem varlega er áætlað 6,5 milljarðar króna á átta ára tímabili, er samfélagslegt tap þessa áætlað af samkeppnisyfirvöldum um 40 milljarðar króna. Ólögmætt samráð olíufélaganna leiddi til hærra verðs á bensíni og olíuvörum. Samráðið leiddi einnig til þess að verð á ýmsum öðrum vörum og þjónustu hækkaði. Loks leiddi samráðið til að vísitölubundin lán hækkuðu. Skaðinn sem olíufélögin hafa valdið nemur á annað hundrað þúsund krónum á hvert mannsbarn í landinu.

Neytendasamtökin gera eftirtaldar kröfur til olíufélaganna:

  • Að þau upplýsi neytendur um hvernig þau ætla að bæta neytendum það tjón sem þau hafa valdið þeim með ólögmætum hætti.
  • Að þau upplýsi almenning um hvernig þau ætla að bæta það samfélagslega tjón sem þau hafa valdið með ólögmætum hætti..
  • Að þau setji sér sérstakar siðareglur um starfshætti í viðskiptum sem þau birta opinberlega.

Neytendasamtökin gera jafnframt þá kröfu til stjórnvalda að þau tryggi með raunhæfum fjárveitingum, að Neytendasamtökin geti í meira mæli en nú er sinnt eðlilegu aðhaldi á markaðnum. Jafnframt leggja Neytendasamtökin áherslu á að viðurlög vegna ólögmæts samráðs fyrirtækja verði hert til muna frá því sem nú er í samkeppnislögum.

Loks minnir stjórn Neytendasamtakanna á að smæð íslensks markaðar, fákeppni og sterk staða fárra markaðsráðandi fyrirtækja kallar á að stjórnvöld tryggi að eftirlitsaðilar geti tekist á við þau vandamál sem fylgja smæðinni. Til að tryggja eðlilega þróun markaðarins er mikilvægt að eftirlitsaðilar geti unnið starf sitt hratt og vel. Samráð olíufélaganna sem nú hefur verið upplýst, sýnir að þörf er á að grípa strax til ráðstafana að efla Samkeppnisstofnun og að auka neytendavernd.