Ályktun um húsnæðisskuldir heimilanna

Fimmtudagur, 7. maí 2009

Á fundi sínum 6. maí samþykkti stjórn Neytendasamtakanna svohljóðandi ályktun um húsnæðisskuldir heimilanna:

Stjórn Neytendasamtakanna minnir á að allt frá hruni bankakerfisins í byrjun október hefur það verið markmið bæði fyrri ríkisstjórnar og þeirrar sem nú situr að tryggja stöðu heimilanna í landinu og sérstaklega þeirra sem lakast standa.

Einn mikilvægasti þátturinn í erfiðri fjárhagsstöðu heimilanna er vaxandi skulda- og greiðslubyrði vegna hárra vaxta, veikrar krónu og áhrifa verð- og gengistryggingar á lán skuldara. Neytendasamtökin taka undir þau sjónarmið að það er með engu móti sanngjarnt eða ásættanlegt gagnvart lántakendum að afleiðingar bankakreppunnar og hruns efnahagslífsins komi af fullum þunga niður á almennum lántakendum þar sem upphaflegar forsendur þeirra fyrir húsnæðislánum eru brostnar. Meginvandi fjölda lántakenda er of há greiðslubyrði lána, sem þeir geta ekki að óbreyttu staðið undir. Því skiptir það sköpum að lækka greiðslubyrðina.

Að mati stjórnar Neytendasamtakanna er eðlilegt að sá hluti hrunsins sem skrifast á mistök stjórnvalda í efnahagsmálum, kostnað vegna hruns af völdum íslenskra banka og fjármálastofnana erlendis og mistaka eftirlitsstofnana hér innanlands lendi á sameiginlegum sjóði landsmanna en ekki almennum skuldurum.

Neytendasamtökin telja að öll þau úrræði sem komið hafa fram undanfarna mánuði, lenging lána, greiðslujöfnun  og nú síðast greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, opni lántakendum húsnæðislána leiðir til standa í skilum og ná stöðugleika á ný. Samtökin leggja áherslu á að afgreiðslu mála einstaklinga verði hraðað þannig að greiðsluaðlögun geti verið raunverulegt úrræði fyrir þá sem eru í erfiðastri stöðu. Í því sambandi er nauðsynlegt að styrkja enn frekar starfsemi Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Einnig þarf að mati Neytendasamtakanna að breyta lögum um greiðsluaðlögun þannig að einyrkjar í atvinnurekstri geti sótt um greiðsluaðlögun vegna skulda viðkomandi heimilis án þess að þurfa að hætta með viðkomandi atvinnurekstur.

Neytendasamtökin eru ekki fylgjandi almennri niðurfærslu skulda á alla einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Ljóst er hins vegar að koma verður sérstaklega til móts við þau heimili sem eiga í verulegum fjárhagserfiðleikum vegna eðlilegra húsnæðislána og greiðsluaðlögun eða önnur úrræði stjórnvalda eiga ekki við. Því telur stjórn Neytendasamtakanna að leiðrétta þurfi stöðu þessara heimila og ber að skoða allar tiltækar færar leiðir í því sambandi, þar á meðal stórauknar vaxtabætur.

Loks minnir stjórn Neytendasamtakanna á að mikilvægasti grundvöllur fyrir sterka stöðu heimilanna er öflugt atvinnulíf. Því skiptir það miklu að stjórnvöld tryggi þegar í stað að fótum verði komið undir bankakerfið og að vextir lækki verulega, sem er frumforsenda þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný.