Ályktun um umferðaröryggi

sunnudagur, 22. nóvember 2009

Ákvarðanir í vegaframkvæmdum 2009:

Ganga gegn auknu umferðaröryggi

Stjórn Neytendasamtakanna samþykkti á fundi sínum í gær svohljóðandi ályktun:

Á þingi Neytendasamtakanna sl. haust var ítrekuð sú stefna samtakanna að þeir fjármunir sem teknir eru af umferðinni í formi skatta og gjalda af bifreiðum og eldsneyti verði nýttir til öryggis- og umferðarmála. Mikilvægast sé að beina framkvæmdum að þeim vegum þar sem flest og alvarlegustu slysin verða. Neytendasamtökin hafa um langt skeið lagt áherslu á að stjórnvöld láti gera vandaða áætlun um hvernig fækka megi slysum í umferðinni eins og gert er í nálægum löndum. Þær tölur sem nú liggja fyrir í fjárlagafrumvarpi og ákvarðanir um framkvæmdir í vegamálum fyrir árið 2009 þýða að gengið er gegn nauðsynlegum breytingum í átt til aukins umferðaröryggis. Af um 21 milljarð vegafé eru aðeins 6 milljarðar áætlaðir til framkvæmda þegar fé hefur verið tekið frá fyrir byggingu þeirra jarðganga og vegakafla landsins á fáfarnari svæði en þar sem helstu slysakaflar landsins liggja á þjóðvegum og þjóðvegum í þéttbýli á svæðinu frá Borgarfirði að Þjórsá. Um 70% af dauðaslysum og meiriháttar slysum hér á landi eiga sér stað á þessu svæði að meðaltali síðustu ár.

Neytendasamtökin hafa árum saman lagt á það áherslu að stjórnvöld vinni eftir vandaðri áætlun um hvernig fækka megi alvarlega slösuðum og látnum í umferðinni. Grundvallaratriði er að vinna markvisst eftir slysatölfræði eins og aðrar þjóðir hafa gert til að ná sem mestum árangri.  Benda má á nágrannaþjóðir okkar s.s. Svía sem hafa náð næstlægstu dánartölu í heiminum á eftir Möltu á nýliðnu ári en það hafa þeir gert með því að aðskilja akstursstefnu á vegum og umferð fótgangandi og bifreiða og bættu Svíar við 300 kílómetrum á síðasta ári þar sem akstursstefnur eru aðskildar til gagnstæðra átta. Hér á landi hefur miðað afar hægt í þessa átt á helstu slysasvæðum landsins sem hafa fram á síðustu ár verið á fyrrnefndu svæði á Suðvesturhorni landsins. Ljóst er að hér á landi eins og í öðrum löndum er uppbygging vegamannvirkja með aðskilnaði gagnkvæmra akbrauta eins og á Reykjanesbrautinni að skila sér í fækkun alvarlegra slysa og dauðaslysa.

Fjöldi dauðaslysa og alvarlegra slasaðra
Samkvæmt opinberum gögnum létust 12 manns í umferðinni hér á landi á síðasta ári sem er lægsta tala látinna í tólf ár. 15 létust í umferðinni árið 2007 en tvö síðustu ár sýna mun færri dauðaslys en árin þar á undan. Árin þar á undan var tíðni dauðaslysa mun meiri.  Vegna þess hve tölfræðin að baki látinna er lág má einungis líta á þessar tölur sem vísbendingar um að það stefni í rétta átt. En dánartölur í umferðinni segja ekki allt. Fjöldi alvarlega slasaðra er ekki síður mikilvægur þar sem hann sýnir oft alvarleg líkamleg og andleg tjón sem oft eru óafturkræf og sá fjöldi hefur því miður farið vaxandi á síðustu árum.

Hvar eru áherslurnar?
Athyglisvert er að sjá áherslur stjórnvalda  miðað við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og allra þeirra aðila sem sinna umferðaröryggismálum. Í henni kemur fram að aukin áhersla verði lögð á umferðaröryggi og sérstaklega verði hugað að umbótum í samgöngukerfi höfuðborgarinnar. Af um 21 milljarði króna sem ætlað er til framkvæmda á árinu fara 14 milljarðar í verk þar sem framkvæmdir eru þegar hafnar. Þar eru á dagskránni Bolungavíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, vegakafli í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, nýr vegur í Arnkötludal, Suðurstrandavegur og Dettifossvegur. Fram hefur komið hjá Vegagerðinni að líklega mun kostnaður við Héðinsfjarðargöng fara talsvert fram úr áætlun og svo getur orðið um önnur stór verkefni vegna falls krónunnar og hárrar verðbólgu og fjármagnskostnaðar. Eins og staðan er núna um miðjan janúar 2009 er gert ráð fyrir 6-7 milljörðum króna til annarra nýframkvæmda við vegakerfi landsins en ljóst er að þarna verður líklega um lægri upphæð að ræða ef fylgt verður áætlunum með tilliti til þess sem hér kemur að framan.

Hvað varð um 8 milljarðana?
Þegar Síminn var seldur voru 8 milljarðar teknir frá til vegaframkvæmda á svæði svokallaðrar Sundabrautar. Vegna deilna um hvaða kosti eigi að velja milli borgar og ríkis hefur ekkert orðið af framkvæmdum á þessu fjölfarna svæði. Ljóst er að upphaflegir 8 milljarðar  eru mun hærri tala í dag vegna ávöxtunar þessa fjár. Staðan  í málinu í dag er sú að Suðvesturhornið  hefur verið svipt framkvæmdafé vegna Sundabrautar sem nemur á annan tug milljarða og hlýtur það að vera verkefni  þingmanna þessa svæðis að snúa þessari ákvörðun við.

Framkvæmdir ekki slegnar af en frestað – umferðaröryggisáætlun
Af upplýsingum á vef  Vegagerðar má ráða að ekki hafi verið ákveðið að hætta við neinar áformaðar  vegaframkvæmdir, en vegna kreppunnar eftir bankahrunið hefur verið ákveðið að fresta og draga úr kostnaði til að bregðast við samdrættinum. En athyglisvert er að á meðan öll stærri verk sem hafin eru við jarðgangnagerð halda áfram eins og ekkert hafi í skorist er hægt á öðrum framkvæmdum eða þeim frestað sem eru á mun fjölfarnari svæðum landsins. Fram kemur í upplýsingum frá Vegagerðinni að leggja á 10-50 milljónir í  ýmis minni verk á höfuðborgarsvæðinu sem ætlað er að greiða fyrir umferð. Eitthvert fé verður lagt í kafla á Suðurlandsvegi en þar hafa orðið mörg dauðaslys á síðustu árum og virðist ekki lát á. Núverandi vinnutillögur um skiptingu vegafjár ganga út frá allt of litlum hlut til úrbóta á höfuðborgarsvæðinu eða á bilinu 1-3% í stað u.þ.b. 25% á undanförnum árum. Þetta þarf að stórbæta, enda um að ræða arðbærustu verkefni í vegamálum.

Skorað á Alþingi
Ísland er nú í 11-12 sæti meðal OECD þjóða varðandi dána í umferðinni. Í rúmlega 30 ár hefur Ísland aldrei verið svona aftarlega heldur hefur það oftast verið í fremstu röð. Það er því alvarlegt og óafsakanlegt ef haldið verður til streitu áformum um að skera niður fjárframlög til umferðaröryggisáætlunar ríkisins. Skorað er á Alþingi að hætta við þau áform.

Gengið frá vegaáætlun eftir að þing kemur saman
Af hálfu stjórnvalda hefur komið fram að ganga á frá vegaáætlun skömmu eftir að þing kemur saman nú í janúar. Neytendasamtökin hafa óskað eftir því að fá fund með samgönguráðherra og formanni samgöngunefndar Alþingis til að koma sjónarmiðum samtakanna um umferðaröryggismál á framfæri.