Ályktun vegna ákvörðunar Kaupþings varðandi íbúðalán

Þriðjudagur, 13. nóvember 2007

 

Fram hefur komið í fréttum að Kaupþing muni frá og með næstu mánaðarmótum ekki veita íbúðarkaupendum heimild til að yfirtaka áhvílandi íbúðalán nema því aðeins að vextir verði þeir sömu og eru á nýjum lánum. Ekki kemur fram hvort vextir lækki á sambærilegan hátt þegar um vaxtalækkun er að ræða.

Neytendasamtökin sendu Kaupþingi bréf þar sem óskað er skýringa á þessu. Í svari Kaupþings kemur fram að með vísan í lánssamning sé þeim heimilt að gera þetta. Lögð er áhersla á í svarinu að þetta hafi engin áhrif á þá sem nú þegar eru með íbúðalán hjá Kaupþingi, þeir geti flutt lánið með sér kaupi þeir nýja fasteign. Þetta eigi eingöngu við í þeim tilvikum þegar íbúð er seld og áhvílandi lán eigi að fylgja með. Þá verði nýi lántakandinn að standast greiðslumat miðað við gildandi vexti.

Vegna þessa hafa Neytendasamtökin sent Neytendastofu bréf þar sem óskað er eftir að hún skoði þetta mál. Kannað verði með tilliti til gildandi samningsskilmála Kaupþings hvort þetta stenst. Einnig kemur til greina að mati Neytendasamtakanna hvort víkja beri slíkum skilmálum til hliðar en samkvæmt 36. gr. samningalaga er heimilt að víkja til hliðar ákvæðum í samningum séu þeir ósanngjarnir gagnvart neytendum. Minnt er á að með þessari ákvörðun er verið að túlka samningsskilmála með nýjum og takmarkandi hætti og er það í litlu samræmi við yfirlýsingar fjármálafyrirtækja þegar þau hófu að veita íbúðalán. Jafnframt hvetja Neytendasamtökin til þess að kannað verði hvort aðrir lánveitendur séu með svipaða skilmála eða túlkun á þeim og Kaupþing ætlar nú að taka upp.

Neytendasamtökin leggja áherslu á að hér er um að ræða eina álöguna enn á neytendur af hálfu lánveitenda sem gerir kjör þeirra umtalvert verri en þau eru í dag. Ljóst er að eftir slíkar breytingar þurfa lántakendur í vaxandi mæli að greiða uppgreiðslugjald vegna lána. Þessu gjaldi hafa Neytendasamtökin ítrekað mótmælt, enda er það að mati samtakanna bæði ósanngjarnt og samkeppnishindrandi eins og fyrirkomulag þessarar gjaldtöku er háttað í dag. Uppgreiðslugjaldið er með einhliða skilmálum fjármálafyrirtækja ekkert annað en skattlagning á neytendur. Það er sambærilegt við stimpilgjaldið, sem stjórnvöld hafa nú lofað að fella niður.

Neytendasamtökin vara fjármálafyrirtæki við því að breyta einhliða skilmálum sínum eða túlkun þeirra á þeim ef það er gert með íþyngjandi hætti fyrir neytendur eins og um er að ræða í þessu tilviki. Jafnframt telja Neytendasamtökin eðlilegt að fjármálafyrirtæki tilkynni viðskiptavinum sínum með ótvíræðum hætti allar breytingar á skilmálum og túlkun fyrirtækjanna á þeim.