Áskorun á landbúnaðarráðherra

Föstudagur, 4. apríl 2014

Stjórn Neytendasamtakanna hefur samþykkt svohljóðandi ályktun:

Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að samtökunum hafi ekki verið gefinn kostur á að skipa fulltrúa í starfshóp landbúnaðarráðherra sem á að endurskoða tollalöggjöf á sviði landbúnaðarmála. Stjórnin telur það jafnframt óvirðingu við Neytendasamtökin að ráðherra sjái ekki ástæðu til að svara ítrekuðum erindum samtakanna þar sem óskað var eftir að fulltrúi þeirra yrði skipaður í þennan mikilvæga starfshóp.

Neytendasamtökin eru hagsmunasamtök íslenskra neytenda og það er því með öllu óskiljanlegt að þau eigi ekki fulltrúa í starfshópi sem ætlað er að fjalla um svo mikilvægt hagsmunamál neytenda.

Stjórn Neytendasamtakanna hvetur landbúnaðarráðherra til að gefa Neytendasamtökunum kost á að skipa fulltrúa sinn í þennan starfshóp.

 

Sjá frétt um erindi Neytendasamtakanna: Frétt 28. mars 2014