Þinglýsing og fjöldi leigusamninga

Leigumarkaður á Íslandi er ekki vel kortlagður og erfitt er að gera sér fulla grein fyrir hve margir eru á leigumarkaði, en talið hefur verið að um 80% landsmanna búi í eigin húsnæði. Svo virðist þó sem fleiri leiti nú á leigumarkaðinn en oft áður, bæði vegna fjárhagsþrenginga og eins vegna þess að fasteignamarkaðurinn á Íslandi hefur ekki verið sérlega stöðugur undanfarin misseri og þ.a.l. telja ýmsir að leiga sé jafnvel fýsilegri kostur en kaup.

Þjóðskrá heldur utan um fjölda þinglýstra leigusamninga, en hins vegar vinnur stofnunin engar frekari upplýsingar, eins og um stærð húsnæðis eða verð uppúr þessum samningum. Hins vegar má sjá upplýsingar um fjölda þinglýstra samninga eftir mánuðum, árum og landsvæðum á heimasíðu Þjóðskrár. Þar má sjá ákveðnar vísbendingar um fjölgun leigjenda en árið 2010 var 10.413 húsaleigusamningum þinglýst. Árið 2005 var hins vegar aðeins 5.229 samningum um húsaleigu þinglýst.

Þessar tölur segja hins vegar ekki nema hálfa söguna. Ekki er skylt að láta þinglýsa leigusamningum og helstu réttaráhrifin af þinglýsingu eru þau að viðkomandi leigjandi getur þá átt rétt á húsaleigubótum (raunar er ekki þörf á að þinglýsa samningum um leigu íbúða í eigu sveitarfélaga til að öðlast rétt til húsaleigubóta). Hins vegar skerðast húsaleigubætur í hlutfalli við tekjur og eignir leigjenda og þar með má telja að hvati leigutaka til að láta þinglýsa samningi fari í einhverjum tilvikum fyrir lítið.

Þannig fá barnlaus hjón engar húsaleigubætur fari samanlagðar árstekjur þeirra (en miðað er við tekjur allra heimilismanna en ekki eingöngu leigutaka) yfir 3.800.000 kr. (sem svarar til rúmlega 158.000 kr. á mánuði fyrir hvort þeirra). Eigi sömu hjón hins vegar eitt barn falla húsaleigubætur ekki að fullu niður fyrr en samanlagðar árstekjur þeirra ná 5.200.000 kr. (eða sem svarar tæplega 217.000 kr. í tekjur fyrir hvort þeirra á mánuði fyrir skatt). Í hvorugu tilvikinu er beinlínis um ofurlaun að ræða og því má telja að einstaklingar með hærri tekjur (sem hljóta að vera þó nokkrir á leigumarkaði) láti sér í léttu rúmi liggja hvort leigusamningi er þinglýst eður ei. (Miðað er við tölur frá 15. febrúar 2011 en reiknivél er aðgengileg hér).

Má því gera ráð fyrir að jafnvel þó tölfræðileg greining færi fram á þinglýstum leigusamningum yrðu niðurstöður slíkrar greiningar ónákvæmar, þar sem inn í þá tölu mundi væntanlega vanta upplýsingar úr leigusamningum sem tekjuhærri leigjendur gera, og þar með væntanlega upplýsingar um dýrari leiguíbúðir. Enn fremur eru ekki greiddar húsaleigubætur vegna leigu á einstaklingsherbergjum og ef leigusamningur er til skemmri tíma en sex mánaða, svo væntanlega er slíkum samningum sjaldan þinglýst.. Verður því að telja að talsvert margir leigusamningar séu í gildi án þess að opinberir aðilar hafi nokkrar upplýsingar eða vitneskju um þá samninga.