1/2017

15. maí 2017

Þriðjudaginn 14. febrúar 2017 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2017

 

X

X

X

gegn

A

A

A

 

 

Deilt um bætur vegna tjóns á yfirdýnu við hreinsun hjá þvottahúsinu A, hér eftir nefnt A.

 

 

Kröfur kvartanda:

X, hér eftir nefnd X, gerir kröfur um að þvottahúsið A greiði fyrir nýja yfirdýnu af gerðinni Velda, Pocket Royal, Vosco að stærð 160x200 í stað þeirrar sem eyðilögð var í þvottavél og/eða þurrkara hjá A. Yfirdýnan kostaði 126.000 kr. þegar hún var keypt þann 20. apríl 2016 í versluninni Svefn og heilsa.

 

 

Gögn:

1.      Kvörtun X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 29. nóvember 2016, ásamt fylgigögnum:

a.       Velda, Pocket Royal, Vosco yfirdýna.

b.      Kvittun fyrir hreinsun á yfirdýnu, ódags.

2.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til A, dags. 20. desember 2016.

3.      Bréf A til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 20. desember 2016.

4.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til X, dags. 20. desember 2016.

5.      Bréf X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 20. desember 2016.

6.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til A, dags. 4. janúar 2017.

7.      Bréf A til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 5. janúar 2017.

8.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til X, dags. 5. janúar 2017.

9.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til X, dags. 11. janúar 2017.

10.  Bréf X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 16. janúar 2017.

11.  Bréf X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 2. febrúar 2017, ásamt fylgigögnum

a.       Kvittun frá Svefni og heilsu ehf. fyrir Velda, Pocket Royal, Vosco yfirdýnu, dags. 2. febrúar 2017.

 

 

Málsmeðferð:

Mál þetta barst kvörtunarnefndinni með kvörtun X dags. 29. nóvember 2016. Kvörtunarnefndin leitaði athugasemda og skýringa A auk þess sem X var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og skýringum, sbr. gagnaskrá. Að gagnaöflun lokinni var málið tekið til úrlausnar nefndarinnar.

 

 

Málavextir:

Samkvæmt gögnum málsins fór X með Velda, Pocket Royal, Vosco yfirdýnu í hreinsun til A í nóvember 2016. A tók við yfirdýnunni til hreinsunar án athugasemda eða nánari skoðunar á yfirdýnunni. Engar þvottamerkingar voru á dýnunni og var hún sett í þvottavél og þurrkara. Þegar X kom heim með yfirdýnuna úr hreinsun kom í ljós að hún hafði hlaupið úr stærðinni 168x220 cm í 158x180 cm. Af hálfu A var X ekki gerð grein fyrir því þegar yfirdýnan var sótt að hún væri illa farin eftir þvott.

 

 

Álit Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að engar þvottaleiðbeiningar eða textílmerkingar eru á yfirdýnunni. Eftir að yfirdýnan var þvegin kom í ljós að hún er fyllt með ull. A tók athugasemdalaust við yfirdýnunni til hreinsunar án þess að gera X grein fyrir því að óvíst væri hvernig haga mætti þvotti og gerði X A í engu grein fyrir því hvernig ástand yfirdýnunnar var eftir þvott. Að mati nefndarinnar hefði A mátt vita af viðkomu yfirdýnunnar að innihald hennar væri viðkvæmt auk þess sem nefndin telur að A hefði í öllu falli átt að skoða yfirdýnuna betur og eftir atvikum upplýsa X um mögulegar afleiðingar af þvotti og þurrkun hennar.

 

Fyrir liggur að yfirdýnan hefur hlaupið um u.þ.b. 15%, hún er orpin, með öllu ónothæf og þar með ónýt. Nefndin telur að A hefði átt að kynna sér betur efni yfirdýnunnar áður en hún var þvegin og í öllu falli veita X leiðbeiningar þegar tekið var við dýnunni eða, eftir atvikum, með símtali áður en hún var þvegin. Nefndin telur jafnframt að tilvísun A til ábyrgðarskilmála sem birtir eru í móttöku A og X mátti sjá þegar hún kom með yfirdýnuna til hreinsunar ekki draga úr ábyrgð A eins og málum er hér háttað.

 

Mat nefndarinnar er að A beri að bæta X það tjón sem hún hefur orðið fyrir af völdum hreinsunarinnar. Samkvæmt gögnum málsins greiddi X 126.000 kr. fyrir yfirdýnuna í apríl 2016. Með yfirlýsingu frá Svefni og heilsu kom fram að verð yfirdýnunnar væri 129.900 kr. þann 2. febrúar 2017. Samkvæmt athugun kvörtunarnefndarinnar er yfirdýnan nú ófáanleg og alls óvíst hvort hún verði fáanleg að nýju. Því er það mat nefndarinnar að A beri að bæta X tjónið með greiðslu 107.100 kr. sem nemur verðmæti yfirdýnunnar á þeim tíma sem hún var keypt að teknu tilliti til 15% afskrifta, sem nefndin telur sanngjarn að gera ráð fyrir að teknu tilliti til aldurs yfirdýnunnar. Þá skal A endurgreiða X kostnað við hreinsun yfirdýnunnar.

 

 

Niðurstaða:

A greiði X 112.100 kr. í bætur vegna skemmda á yfirdýnu.

 

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Matthildur Sveinsdóttir