1/2018

26. júní 2018

Föstudaginn 23. mars 2018 var fundur haldinn í úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2018

X

gegn

Y

Deilt um bætur vegna tjóns á jakkafatabuxum, rúmteppi og púðaverum í stíl við hreinsun hjá Y.

 

Kröfur sóknaraðila:
X, hér eftir nefnd sóknaraðili, gerir þær kröfur í málinu að Y hér eftir varnaraðili bæti henni að fullu það tjón sem varð á jakkafatabuxunum í hreinsuninni, en sams konar jakkaföt kosta í dag, samkvæmt kröfulýsingu, 59.500 kr. Auk þess krefst sóknaraðili þess að fá kostnaðinn við hreinsunina á jakkafatabuxunum endurgreiddan alls 2.950 kr. Sóknaraðili krefst þess einnig að fá að fullu bætt það tjón sem varð á rúmteppi og púðaverum við hreinsun varnaraðila, sams konar rúmteppi kostar samkvæmt kröfulýsingu 33.900 kr. og púðaver í stíl 4.900 kr. stykkið, en um var að ræða tvö púðaver alls 9.800 kr. Sóknaraðili krefst þess einnig að fá kostnaðinn fyrir hreinsuninni á rúmteppinu og púðaverunum endurgreiddan alls 4.040 kr.

 

Gögn:

  1. Kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 10. janúar 2018, ásamt fylgigögnum:
  1. Jakkaföt, ásamt gögnum frá Versluninni Adam Herrahús sem sýnir fram á kostnað fyrir sambærileg jakkaföt og kvittun fyrir kaupum á þjónustunni dags. 31. mars 2017.
  2. Rúmteppið ásamt tilboði frá versluninni Vogue fyrir sambærilegum rúmfatnaði og kvittun fyrir kaupum á þjónustunni dags. 8. desember 2017.
  1. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 24. janúar 2018.
  2. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 7. febrúar 2018. Þar sem varnaraðila var veitt framlenging á svarfresti
  3. Bréf varnaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 8. febrúar 2018.
  4. Bréf sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 14. febrúar 2018.
  5. Bréf varnaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 1. mars 2018.

 

Málsmeðferð:
Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 10. janúar 2018. Úrskurðarnefndin leitaði athugasemda og skýringa varnaraðila, auk þess sem sóknaraðila var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og skýringum eftir að andmæli varnaraðila lágu fyrir. Varnaraðili taldi ekki þörf á að koma frekari athugasemdum á framfæri og var málið því tekið til úrlausnar nefndarinnar.

Málavextir:
Samkvæmt gögnum málsins fór sóknaraðili með jakkafatabuxur í hreinsun til varnaraðila þann 31. mars 2017. Að lokinni hreinsun sótti sóknaraðili buxurnar og gekk frá þeim inn í skáp. Næst þegar nota átti jakkafötin tók sóknaraðili eftir því að buxurnar voru ekki eins og þær áttu að sér að vera. Sóknaraðili fór með buxurnar til varnaraðila þar sem hann hélt að hann hefði fengið rangar buxur úr hreinsuninni. Við athugun á framleiðslunúmeri kom í ljós að þetta voru réttar buxur. Sóknaraðili heldur því fram að buxurnar séu ónýtar enda hafi þær fengið ranga meðhöndlun frá varnaraðila.

Sóknaraðili keypti aftur þjónustu af varnaraðila þann 8. desember 2017, en í það skiptið fór hann með rúmteppi og tvö púðaver í stíl í hreinsun. Sóknaraðili telur að bæði teppið og púðaverin hafi hlaupið umtalsvert í hreinsuninni. Varnaraðili heldur því fram að meðhöndlun á rúmteppinu og púðaverinu hafi verið í fullkomnu samræmi við þvottaleiðbeiningar og að teppið hafi verið þvegið á 30 gráðum og svo hengt upp til þurrkunnar.    

Úrskurður úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:
Eftir yfirferð á jakkafötunum telur nefndin það ljóst að jakkafatabuxurnar hafi fengið aðra meðhöndlun en jakkinn sem sjá má af því að þær líta  meðal annars ekki út fyrir að vera úr sama efni. Nefndin álítur að áferð efnis buxnanna hafi breyst umtalsvert og að það megi rekja til rangrar meðhöndlunar. Við mat á kröfu sóknaraðila telur nefndin að horfa verði til þess að þegar jakkaföt séu keypt er hugsunin oftast sú að nota skuli buxurnar og jakkann saman. Verði jakkafatanna hefur ekki verið mótmælt að hálfu varnaraðila og telur nefndin að þau gögn sem sóknaraðili bar fram máli sínu til stuðnings sýni fram á eðlilegan kostnað fyrir ný jakkaföt. Í ljósi framangreinds telur nefndin að um gallaða þjónustu hafi verið að ræða og að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila 59.500 kr. fyrir ný jakkaföt auk þess að endurgreiða sóknaraðila kostnaðinn fyrir hreinsunina alls 2.950 kr.

Hvað varðar rúmteppið og púðaverin telur nefndin að eðlilegt sé að bómull hlaupi um ákveðna prósentu við fyrstu þvotta og að það megi í raun ganga út frá því að það gerist. Það þurfi þá ekki endilega að gerast við fyrsta þvott heldur getur bómullin hlaupið í síðari þvottum. Við yfirferð á teppinu telur nefndin það ekki hafa hlaupið óeðlilega og ekkert sem sýnir fram á ranga meðhöndlun. Kærunefndin getur því ekki fallist á kröfu sóknaraðila um bætur vegna þess að rúmteppið og púðaverin hlupu í þvotti enda telur hún að það megi ganga út frá því að svo gerist. Nefndin hafnar einnig kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu á kostnaði við hreinsunina á rúmteppinu og púðaverunum af sömu ástæðu.  

Niðurstaða:   
Varnaraðili greiði sóknaraðila 59.500 kr. í bætur vegna tjóns er varð á jakkafatabuxum sóknaraðila við hreinsun þann 31. mars 2017 auk þess ber honum að endurgreiða sóknaraðila 2.950 kr. vegna galla á seldri þjónustu. Varnaraðila ber einnig að endurgreiða sóknaraðila málskotsgjaldið fyrir nefndina sbr. 3. mgr. samþykktar nefndarinnar 2.000 kr.  Alls 64.450 kr.

Öðrum kröfum sóknaraðila í málinu er hafnað.  

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir