2/2018

26. júní 2018

Föstudaginn 23. mars 2018 var fundur haldinn í úrskurðarnefnd  Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2018

X

gegn

Y

Deilt um bætur vegna tjóns á kápu keyptri í verslun K í Kringlunni þann 18. júní 2016 við hreinsun hjá Y í október 2017.

 

Kröfur sóknaraðila:
X, hér eftir nefnd sóknaraðili, gerir þær kröfur í málinu að Y, hér eftir nefnd varnaraðili, eða Verslunin K bæti sér að fullu það tjón sem hún varð fyrir þegar hún fór með kápu sína í þurrhreinsun hjá varnaraðila alls 40.000 kr.  

 

Gögn:

  1. Kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 24. janúar 2018, ásamt fylgigögnum:
  1. Kápa keypt í versluninni K þann 18. júní 2016. 
  2. Vísayfirlit til stuðnings kröfufjárhæð og sýnir fram á viðskipti sóknaraðila við K þann 18. júní að fjárhæð 40. 491 kr.
  3. Tölvupóstasamskipti sóknaraðila við starfsmann Neytendasamtakanna og svar verslunarinnar K við erindi Neytendasamtakanna. 
  1. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 29. janúar 2018.
  2. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 12. febrúar 2018. Þar sem varnaraðila var veitt framlenging á svarfresti.

 

 

 

Málsmeðferð:
Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 24. janúar 2018. Úrskurðarnefndin leitaði athugasemda og skýringa varnaraðila, andmæli bárust ekki innan tímafrests. Málið var því tekið til úrlausnar nefndarinnar.

Málavextir:
Samkvæmt gögnum málsins fór sóknaraðili með kápu keypta í K Kringlunni þann 18. júní 2016 í hreinsun hjá varnaraðila í október 2017. Þegar kápan kom úr hreinsun kom í ljós að dökkur litur gervileðurs kápunnar hafði smitað út frá sér. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila þetta strax við afhendingu en taldi þó að fylgt hafi verið þvottaleiðbeiningum kápunnar og að þar komi fram að í lagi sé að þurrhreinsa hana. Meðhöndlun varnaraðila var samkvæmt gögnum málsins eftirfarandi: Þurrhreinsivél með perklór í 30 til 40 mínútur. Varnaraðili heldur því fram að þvottaleiðbeiningar hafi verið rangar og taldi tjónið vera á ábyrgð seljenda kápunnar. Seljandi kápunnar bar fyrir sig að þeim hafi aldrei borist slík kvörtun áður og að eitthvað annað hlyti að hafa gerst sem orsakaði tjónið á kápunni. 

Úrskurður úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:
Úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda starfar samkvæmt samþykktum nefndarinnar. Í 1. gr. samþykktanna er kveðið á um gildissvið nefndarinnar og segir þar að nefndin taki til meðferðar og úrskurði um hvers konar kvartanir frá neytendum vegna kaupa á þjónustu fyrirtækja innan Félags efnalaugaeigenda. Nefndin telur sér því ekki annað fært en að vísa frá þeim kröfulið er beinist að versluninni K enda eru verslunin ekki innan Félags efnalaugaeigenda og skortir nefndinni því valdheimildir til að taka kröfuliðinn til úrlausnar.

Eftir yfirferð á kápunni telur nefndin það ljóst að hreinsunarleiðbeiningar hennar séu rangar miðað við efni kápunnar og bjóði þar með upp á ranga meðhöndlun. Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að varnaraðili hafi þrifið flíkina í samræmi við þær leiðbeiningar er fylgdu henni og er það álit nefndarinnar að sú fullyrðing varnaraðila standist. Umrætt tjón verður því ekki rakið til saknæmrar háttsemi eða gáleysis varnaraðila í málinu, enda má jafnan treysta því sem kemur fram í þvottaleiðbeiningum er fylgja flíkum. Kröfu sóknaraðila í málinu er því hafnað.

Kærunefndin vill þó koma því á framfæri að hún telur mögulegt að rekja megi tjónið til seljanda kápunnar þar sem um hugsanlegan framleiðslugalla sé að ræða og bendir sóknaraðila jafnframt á kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa í þessu sambandi.   

Niðurstaða:
Kröfum sóknaraðila í málinu er hafnað. 

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir