3/2017

18. október 2017

Þriðjudaginn 5. september 2017 var fundur haldinn í Kvörtunarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2017

X

 

gegn

A

Deilt um bætur vegna tjóns á jakka við hreinsun hjá þvottahúsinu A.

 

 

Kröfur kvartanda:

X, hér eftir nefndur X, gerir kröfur um að þvottahúsið A lagfæri jakkann svo hann líti út eins og áður en farið var með hann í hreinsun eða að hann verði að fullu bættur. Jakkinn kostar 59.980 kr. í Boss búðinni.

 

 

Gögn:

1.      Kvörtun X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 28. júní 2017, ásamt fylgigögnum:

a.       Jakki keyptur í Boss búðinni.

2.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til A, dags. 13. júlí 2017.

3.      Bréf A til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 13. júlí 2017.

4.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til X, dags. 13. júlí 2017.

5.      Bréf X til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 13. júlí 2017.

6.      Bréf Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til A, dags. 14. júlí 2017.

7.      Bréf A til Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 27. júlí 2017.

8.      Önnur fylgigögn:

a.       Kvittun frá Boss búðinni fyrir HR stökum jakka Reno, dags. 21. júlí 2017.

b.      Breytingarnóta frá Boss búðinni stíluð á X

c.       Kvittun frá A dags. 2. júní 2017

 

 

Málsmeðferð:

Mál þetta barst kvörtunarnefndinni með kvörtun X dags. 28. júní 2017. Kvörtunarnefndin leitaði athugasemda og skýringa A auk þess sem X var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og skýringum, sbr. gagnaskrá. Að gagnaöflun lokinni var málið tekið til úrlausnar nefndarinnar.

Málavextir:

Samkvæmt gögnum málsins fór X með jakka, keyptan í júlímánuði 2016, í hreinsun til A í lok maí 2017. Þegar X kom með jakkann heim úr hreinsun kom í ljós breið rönd þvert yfir bak jakkans. A hefur boðist til að reyna að lagfæra jakkann með því að setja hann í vatn án kostnaðar fyrir X. X hefur ekki viljað láta á það reyna án þess að vita með vissu hver staðan yrði ef ekki gengi að lagfæra jakkann. 

 

Álit Kvörtunarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að breið lína er yfir bak jakkans auk þess sem það er far á ermum jakkans og hann nokkuð illa farinn. Að mati nefndarinnar getur umrætt far ekki hafa myndast við annað en að eitthvað heitt hafi legið við efnið. A telur ómögulegt að þetta hafi gerst í hreinsuninni þar sem allir jakkar eru handstraujaðir en ekki í vélum. Hvorki X né fulltrúar Boss búðarinnar þar sem jakkinn er keyptur telja að svona jafnt og djúpt far geti myndast nema með einhverju heitu og ekki sé um galla að ræða í efninu. Samkvæmt X hefur jakkinn hvorki verið straujaður né farið fyrr í hreinsun. Að teknu tilliti til gagna málsins og útlits jakkans telur nefndin að farið á jakkanum hafi orðið til við hreinsun og ber þvottahúsið því ábyrgð á tjóninu.

 

Mat nefndarinnar er að A eigi að fá tækifæri til að reyna að lagfæra jakkann en gangi það ekki þá beri A að bæta X það tjón sem hann hefur orðið fyrir af völdum hreinsunarinnar. Samkvæmt gögnum málsins kostar jakkinn nú 59.980 kr. Það er mat nefndarinnar að geti A ekki lagfært jakkann beri að bæta X tjónið með greiðslu 50.983 kr. sem nemur verðmæti jakkans að teknu tilliti til 15% afskrifta, sem nefndin telur sanngjarn að gera ráð fyrir að teknu tilliti til aldurs jakkans.

 

 

Niðurstaða:

A lagfæri jakka X en greiði X 50.983 kr. í bætur vegna skemmda á jakka takist ekki að lagfæra hann.

 

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir