3/2018

29. október 2018

Föstudaginn 24. ágúst 2018 var fundur haldinn í úrskurðarnefnd  Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2018

X

gegn

Y

Deilt um bótaskyldu vegna skemmda á jakkafötum af gerðinni Boss sem komu í ljós í kjölfar hreinsunar hjá Y.

Kröfur sóknaraðila:
X, hér eftir nefndur sóknaraðili, gerir þær kröfur í málinu að Y, hér eftir nefnd varnaraðili, bæti sér að fullu það tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir er hann fór með jakkaföt sín í hreinsun hjá varnaraðila alls 89.900 kr.

Gögn:

  1. Kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 6. júní 2018, ásamt fylgigögnum:
  1. Jakki af gerðinni Boss.
  2. Reikningur fyrir kaupum á sambærilegum jakkafötum úr Boss búðinni dags. 9. júní 2018 sem sýnir fram á verðið á álíka jakkafötum.
  1. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 18. júní 2018.
  2. Bréf varnaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 22. júní 2018.
  3. Bréf sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 4. júlí 2018.
  4. Bréf varnaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 10. júlí 2018.

 

 

Málsmeðferð:
Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 6. júní 2018. Úrskurðarnefndin óskaði í kjölfarið eftir frekari gögnum frá sóknaraðila sem bárust nefndinni þann 15. júní 2018. Úrskurðarnefndin leitaði athugasemda og skýringa varnaraðila, auk þess sem sóknaraðila var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og skýringum eftir að andmæli varnaraðila lágu fyrir. Varnaraðili taldi ekki þörf á að koma frekari athugasemdum á framfæri og var málið því tekið til úrlausnar nefndarinnar.

Málavextir:
Samkvæmt gögnum málsins fór sóknaraðili með um fimm ára gömul jakkaföt af gerðinni Boss í hreinsun hjá varnaraðila. Þegar að jakkafötin komu úr hreinsun tók sóknaraðili eftir hnökrum í jakkanum sem hann taldi stafa af of miklum hita við hreinsunina. Í andmælum varnaraðila kom fram að öll jakkaföt væru þrifin á sömu stillingu í þurrhreinsivélum þeirra. Þurrhreinsivélin sem jakkinn var hreinsaður í tók 12 kg. af fatnaði og ólíklegt yrði að teljast að ef vélin hefði verið á of miklum hita að eingöngu jakki sóknaraðila hafi orðið fyrir skemmdum en ekki annar fatnaður í sömu vél s.s. jakkafatabuxur sóknaraðila sem einnig voru í umræddri vél. Í andmælum varnaraðila kom einnig fram að ómögulegt væri að stilla vélina á visst hitastig heldur væri eingöngu hægt að velja stillingu hreinsunarinnar sem væri svo forrituð á ákveðið hitastig. Varnaraðili telur jafnframt líklegt að jakkinn hafi verið úti í rigningu eða blotnað með öðrum hætti sem geti valdið því að loftbólur byrji að myndast inn í filti jakkans. Sóknaraðili mótmælti því að jakkinn hafi blotnað og að hann hafi tekið eftir hnökrunum strax við fyrstu notkun eftir hreinsunina. Sóknaraðili hélt því jafnframt fram að ef að jakkinn hefði blotnað með þessum hætti að þá hefði það gerst við hreinsunina.

Úrskurður úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:

Eftir yfirferð á jakkafötunum telur nefndin að tjónið megi rekja til þess að flíselín fóðrið milli efna jakkans hafi losnað. Nefndin telur ástæðu þess að flíselínið losnar megi ekki endilega rekja til hita, þar að auki sé perklór alltaf álíka heitur eða í kringum 22 gráður og að jafnaði sé ekki hægt að stjórna hitastiginu sérstaklega nema þá eingöngu við þurrkunina. Nefndin telur að of mikill hiti geti aftur á móti leitt til þess að bungur og hnökrar álíka þeim sem eru á jakkanum myndist en að það geti jafnframt gerst ef að jakkar blotna í rigningu eða of mikill hiti er notaður við pressun á flíkinni. Flíselínið er límt inn í efni jakkans og geta verið margvíslegar ástæður fyrir því að það losni. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka að umrætt tjón hafi orðið við hreinsun á flíkinni telur nefndin það harla ólíklegt og við skoðun á flíkinni sé ekkert sem bendi sérstaklega til þess að svo sé. Í ljósi framangreinds, og þeirrar staðreyndar að ekkert hefur komið fram í málinu sem sýnir fram á ranga meðhöndlun varnaraðila, er kröfu sóknaraðila hafnað.

Nefndin bendir sóknaraðila þó á þann möguleika að koma fötunum til klæðskera sem gæti líklegast gert við flíkina án mikils kostnaðar, bungurnar má eingöngu finna á boðungum jakkans en engin flíselín fóðrun er aftan á jakkanum né í jakkafatabuxunum.

 

 

Niðurstaða:
Kröfum sóknaraðila í málinu er hafnað.

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir