4/2017

26. júní 2018

Föstudaginn 23. mars 2018 var fundur haldinn í úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 4/2017

X

gegn

Y

Deilt um bætur vegna tjóns á úlpu við hreinsun hjá Y.

 

Kröfur sóknaraðila:
X, hér eftir nefnd sóknaraðili, gerir þær kröfur í málinu að Y hér eftir varnaraðili bæti henni að fullu tjónið sem varð á úlpunni, en sams konar úlpa kostar í dag, skv. kröfulýsingu, 129.990 kr.

 

Gögn:

  1. Kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 14. nóvember 2017, ásamt fylgigögnum:
    1. Cananda Goose úlpa keypt í Cintamani búðinni í Bankastræti 13.12.2011.
    2. Tölvupóstsamskipti sóknaraðila við Y og S efh.

 

  1. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 11. janúar 2018.

 

  1. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila dags. 23. janúar 2018.

 

  1. Önnur fylgigögn:
    1. Kvittun frá S ehf fyrir kaupum á úlpunni, dags. 13. 12. 2011.

 

 

 

Málsmeðferð:
Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 14. nóvember 2017. Úrskurðarnefndin leitaði athugasemda og skýringa varnaraðila, andmæli bárust ekki innan tímafrests. Málið var því tekið til úrlausnar nefndarinnar.

Málavextir:
Samkvæmt gögnum málsins fór sóknaraðili með úlpu, keypta 13. desember 2011, í hreinsun til varnaraðila í nóvember 2016. Þegar sóknaraðili sótti úlpuna tók hann strax eftir því að hvítar rákir voru í flíkinni sem ekki var hægt að strjúka úr með rökum klút og sátu hreinsiefni eftir í efni úlpunnar, skinnið á hettunni hafði hlaupið, efnið í úlpunni upplitast og saumar orðnir hvítir. Sást þetta best á miðum innan í úlpunni sem höfðu litast í gráfjólubláum lit. Rennilás var auk þess ekki lengur sléttur sem benti til að úlpan hefði hlaupið. Varnaraðili tók úlpuna aftur í hreinsun til að reyna að bjarga flíkinni en bar það ekki árangur skv. sóknaraðila. Sóknaraðili fór því fram á að fá úlpuna bætta, varnaraðili varð ekki við þeirri kröfu sóknaraðila og taldi úlpuna í eðlilegu ástandi miðað við aldur hennar. 

Úrskurður úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:
Samkvæmt ítarlegri yfirferð á gögnum málsins styður eftirfarandi við frásögn sóknaraðila: Skinn á úlpu hefur hlaupið sem og úlpan sjálf sem sjá má út frá rennilás, bendir það til þess að úlpan hafi ofhitnað við hreinsunina. Þar að auki hefur merki úlpunnar og miðar innan í úlpunni tekið í sig lit sem bendir til þess að vökvinn hafi verið orðinn of skítugur. Er það því mat nefndarinnar að varnaraðili beri ábyrgð á því tjóni er varð á úlpunni við hreinsunina. Engu að síður telur nefndin að ástand úlpunnar bendi til meiri notkunar en kemur fram í kvörtun sóknaraðila. Við yfirferð á úlpunni mátti til að mynda finna göt á báðum ermum, sem og merki um slit sem erfitt er að sjá að hafi gerst í hreinsuninni. Mat nefndarinnar er því samkvæmt framangreindu að varnaraðila beri að bæta sóknaraðila það tjón sem varð á úlpunni í umræddri hreinsun. Við mat á bótafjárhæð er miðað við það endurkaupsverð er fram kemur í kvörtun sóknaraðila enda hefur því ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila og telur nefndin að um eðlilegt verð sé að ræða fyrir sambærilega úlpu. Nefndin telur sér þó ekki annað fært við mat á bótafjárhæðinni að taka tillit til aldurs og notkunnar úlpunnar. Álit nefndarinnar er að varnaraðili beri að greiða sóknaraðila því sem nemur helmingi endurkaupsverðs, alls 65.000 kr.

Niðurstaða:
Varnaraðili greiði sóknaraðila 65.000 kr. í bætur vegna tjóns er varð á úlpunni í umræddri hreinsun sem og endurgreiði honum málskotsgjaldið fyrir nefndina sbr. 3. mgr. samþykktar nefndarinnar alls kr. 2.000.

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir