4/2018

30. október 2018

Föstudaginn 24. ágúst 2018 var fundur haldinn í úrskurðarnefnd  Neytendasamtakanna og Félagi efnalaugaeigenda.

 

Fyrir var tekið mál nr. 4/2018

X

gegn

Y

Deilt um fjárhæð bóta vegna jakkafata sem týndust við hreinsun þann 11. júní 2018.

 

Kröfur sóknaraðila:
X, hér eftir nefnd sóknaraðili, gerir þær kröfur í málinu að Y, hér eftir nefnd varnaraðili, bæti sér að fullu það tjón sem hún varð fyrir er jakkaföt hennar týndust við hreinsun þann 11. júní 2018.

 

Gögn:

  1. Kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda, dags. 4. júlí 2018, ásamt fylgigögnum:
  1. Tölvupóstasamskipti milli sóknar- og varnaraðila í aðdraganda málsins. 
  2. Móttökukvittun, dags. þann 11. júní 2018.
  1. Bréf úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda til varnaraðila, dags. 6. júlí 2018.
  2. Bréf varnaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 12. júlí 2018, ásamt fylgigögnum:
    1. Mynd af jakkafötunum.
  3. Bréf sóknaraðila til úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda,  dags. 23. júlí 2018, ásamt fylgigögnum:
    1. Skjal frá Herragarðinum þar sem kemur fram áætlaður kostnaður vegna sambærilegra jakkafata.

 

Málsmeðferð:
Mál þetta barst úrskurðarnefndinni með kvörtun sóknaraðila dags. 4. júlí 2018. Úrskurðarnefndin leitaði athugasemda og skýringa varnaraðila, auk þess sem sóknaraðila var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og skýringum eftir að andmæli varnaraðila lágu fyrir. Málið var í kjölfarið tekið til úrlausnar nefndarinnar.

Málavextir:
Samkvæmt gögnum málsins fór sóknaraðili, þann 11. júní 2018, með um þriggja ára gömul jakkaföt í hreinsun hjá varnaraðila. Þegar að sóknaraðili fór að ná í fötin, þann 14. sama mánaðar, kom í ljós að þau væru týnd. Með vísan í 25. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 fór sóknaraðila fram á það við varnaraðila að hann bætti sér það tjón sem hann hafði orðið fyrir. Varnaraðili hafnaði ekki bótaskyldu sinni í málinu en óskaði eftir upplýsingum um það hvar og hvenær fötin voru keypt ásamt því að spyrjast fyrir um kaupnótu. Sóknaraðili upplýsti varnaraðila um að fötin höfðu verið keypt í Herragarðinum í Kringlunni og væru um þriggja ára gömul, nótuna ætti hún aftur á móti ekki til en taldi að verðið á sambærilegum fötum í sömu verslun væri í kringum 70.000 kr. Jafnframt kom það fram að umrædd jakkaföt hefðu eingöngu verið notuð við sérstök tilefni og þar með ekki mikið notuð. Varnaraðili bauðst til þess að greiða sóknaraðila bætur að fjárhæð 52.500 kr. eða að því sem nemur 75% af andvirði jakkafatanna miðað við það verð sem að sóknaraðili taldi að sambærileg jakkaföt kostuðu. Varnaraðili taldi eðlilegt að boð hans miðaði við 75% af heildarfjárhæð og hélt því fram að það væri í samræmi við þá framkvæmd er þekktist bæði hjá tryggingarfélögum sem og Neytendasamtökunum. Sóknaraðili féllst ekki á framangreinda bótafjárhæð og taldi hana í samráði við Neytendasamtökin fremur eiga að byggjast á heildstæðu mati á gögnum í hverju máli fyrir sig. Sóknaraðili lagði jafnframt fram gagntilboð sem hljóðaði upp á bótagreiðslu að fjárhæð 63.000 kr. Varnaraðili hafnaði gagntilboði sóknaraðila og lagði til að málið færi fyrir úrskurðarnefnd Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda.

Kröfur sóknaraðila í málinu voru að fá jakkafötin bætt að fullu, alls 70.000 kr. Varnaraðili hafnaði ekki bótaskyldu sinni í málinu en taldi að líta bæri til aldurs jakkafatanna og þar með eðlilegra affalla í samræmi við fyrri fordæmi nefndarinnar sem og framkvæmd bótaútreikninga tryggingarfélaga hér á landi. Búið væri að bjóða sóknaraðila bætur sem námu 75% af andvirði jakkafatanna, miðað við þær verðupplýsingar er sóknaraðili lét varnaraðila í té eftir að fötin týndust, og gat hann ekki fallist á að bótafjárhæðin ætti að miða við 90% af andvirði þeirra eða 63.000 kr. Sóknaraðili taldi að í tilfellum sem þessum ætti tjónið að vera bætt að fullu en ekki eingöngu að hluta með teknu tilliti til affalla. Sóknaraðili kom einnig að nýju málsgagni frá Herragarðinum en þar kom fram að um væri að ræða þýsk jakkaföt líklegast af gerðinni Benvenuto og væru þau á verðbilinu 59.980- 69.980 kr.   

Úrskurður úrskurðarnefndar Neytendasamtakanna og Félags efnalaugaeigenda:

Í ljósi þeirrar staðreyndar að jakkafötin týndust í hreinsun hjá varnaraðila er nefndinni ekki fært að leggja mat á ástand fatanna. Nefndin telur þá staðreynd að fötin séu þriggja ára gömul eina og sér ekki eiga að leiða til þess að bótafjárhæðin skerðist og telur það jafnframt eðlilegt í málum sem þessum þ.e. þegar að fatnaður týnist að þá sé hann bættur að fullu. Nefndin áréttar þó að mögulega hefði mat á fötunum leitt til þess að rétt væri að horfa til einhverrar skerðingar á bótafjárhæðinni. Engin kvittun fyrir kaupunum liggur fyrir og hefur því verði sem að sóknaraðili fór fram á ekki verið mótmælt sérstaklega. Nefndin telur sér þó ófært um annað en að líta til verðmats Herragarðsins í sambandi við andvirði fatanna sem týndust enda sé það í raun eina málsgagnið sem að sýnir að einhverju leyti fram á kostnað þeirra. Þar kemur fram að sambærileg föt séu á verðbilinu 59.980 – 69.980 kr. í verslun Herragarðsins. Nefndi lítur svo á m.a. í ljósi skorts á gögnum, að ekki sé hægt að miða við efra mark verðmatsins og er það álit nefndarinnar að varnaraðila beri að bæta sóknaraðila það tjón sem hann varð fyrir er jakkaföt hans týndust að fullu miðað við neðra verðmat Herragarðsins, alls 59.980 kr.  

 

Niðurstaða:
Varnaraðili greiði sóknaraðila 59.980 kr. í bætur vegna jakkafatanna sem týndust sem og endurgreiði honum málskotsgjaldið fyrir nefndina sbr. 3. mgr. samþykktar nefndarinnar alls kr. 2.000. 

 

Dröfn Farestveit

Þorvarður Helgason

Þórunn Anna Árnadóttir