Ábyrgð á rafhlöðum og hleðslutækjum

Föstudagur, 13. maí 2011

Oft er því haldið fram að frestur til að kvarta vegna galla á tækjum eins og rafhlöðum og hleðslutækjum í fartölvum og símum sé sex mánuður. Hvað er til í  því?

Samkvæmt lögum um neytendakaup (þegar neytandi kaupir af fyrirtæki) er kvörtunarfrestur ýmist tvö eða fimm (vegna hluta sem ætlaður er verulega lengri endingartími) ár. Ekki má semja um styttri tíma en það eða nefna styttri frest í skilmálum eða á kvittun. Þetta þýðir að ef neytandi kaupir gallaðan hlut getur hann kvartað ef gallinn kemur fram innan tveggja ára frá kaupunum. Þessi tveggja ára regla gildir því jafnt um rafhlöður og hleðslutæki eins og annað.

Hins vegar þarf að leiða líkur að því að um galla sé að ræða, en ekki t.d. eðlilegt slit eða skemmdir vegna rangrar notkunar. Komi galli fram innan sex mánaða frá kaupum er þó litið svo á að gallinn hafi verið til staðar við kaupin, þ.e. nema seljandi sanni annað.

Ef um galla er að ræða ber því seljanda að bæta úr því ef hleðslutæki eða rafhlaða í fartölvu eða síma reynist gölluð. Sú skylda fellur hins vegar niður ef ekki er um galla að ræða, ef t.a.m. sýnt er ram á að þessi tæki séu notuð vitlaust eða skemmd eða ef um eðlilegt slit er að ræða.