Aðgangur leigusala að hinu leigða húsnæði

Aðgangur leigusala að hinu leigða húsnæði
Leigusali á rétt á aðgangi að leiguhúsnæðinu ef gera þarf við það og eins á hann rétt á að sýna húsnæðið hugsanlegum leigjendum eða kaupendum þegar sex mánuðir eða minna eru eftir af leigusamningi. 

Almenna reglan
Í 8. kafla húsaleigulaga er fjallað um aðgang leigusala að leigðu húsnæði. Leigusali á rétt á aðgangi að leiguhúsnæði með hæfilegum fyrirvara og í samráði við leigjanda í þeim tilgangi að láta framkvæma úrbætur á húsnæðinu og til eftirlits með ástandi þess og meðferð leigjanda á því. Hér er svo vissulega um það að ræða að aðilar leigusamnings bera gagnkvæmar tillitsskyldur gagnvart hver öðrum og því kæmi varla til álita að leigusali gæti komið í vikulegar heimsóknir til að fylgjast með umgengni leigjandans! Þá má leigusali ekki fara inn í húsnæðið nema leigjandi eða umboðsmaður hans sé viðstaddur, nema leigjandi samþykki það sérstaklega. Hér þarf því að taka inn í reikninginn að leiguhúsnæðið er heimili leigjandans og nýtur friðhelgi sem slíkt.

Um þetta er fjallað í 1. mgr. 41. gr. laganna og er hún svohljóðandi: Leigusali á rétt á aðgangi að hinu leigða húsnæði með hæfilegum fyrirvara og í samráði við leigjanda þannig að hvorki fari í bága við hagsmuni hans né leigjanda til að láta framkvæma úrbætur á hinu leigða og til eftirlits með ástandi þess og meðferð. Leigusala er þó aldrei heimill aðgangur að hinu leigða húsnæði þegar leigjandi eða umboðsmaður hans er ekki viðstaddur, nema að fengnu samþykki leigjanda.

Getur leitt til riftunar
Í 18. gr. laganna er fjallað um skyldu leigjanda til að fara vel með hið leigða húsnæði og í samræmi við umsamin afnot. Ef leigjandi, þeir sem búa með honum eða gestir hans, valda tjóni á húsnæðinu og bæta ekki úr því er leigusala heimilt að láta viðgerð fara fram á kostnað leigjanda. Þegar svo háttar til er leigjanda skylt að veita leigusala og þeim sem hann kann að ráða til viðgerðarinnar aðgang að hinu leigða. Ef leigjandi meinar leigusala eða öðrum, án gildra ástæðna, aðgangi að húsnæðinu þegar um er að ræða slíka viðgerð getur leigusali rift samningnum.

Sýning húsnæðis
Í 2 mgr. 41 gr. er svo fjallað um rétt leigusala til að sýna húsnæðið: Á sex síðustu mánuðum leigutímabils er leigusala heimilt, sbr. 1. mgr., að sýna hið leigða ákveðinn tíma á dag, þó ekki meira en tvær stundir hverju sinni, væntanlegum kaupendum eða leigjendum, en jafnan skal tilkynna slíka heimsókn með minnst eins sólarhrings fyrirvara. Við slíka sýningu húsnæðisins skal leigjandi eða umboðsmaður hans jafnan vera viðstaddur. Aðilum er þó heimilt að semja sín á milli um aðra tilhögun.