Aflýsing flugs

Laugardagur, 30. júlí 2011

Samkvæmt reglugerð EB um réttindi flugfarþega ber flugfélögum að bjóða farþegum nýja flugleið ef flugi þeirra er aflýst. Ef tilkynning um aflýsingu berst innan við tveimur vikum fyrir upphaflega áætlaða brottför og tilboð flugfélagsins um breytta flugleið felur í sér að farþegi kemur á ákvörðunarstað meira en fjórum tímum seinna en upphaflega var áætlað, getur flugfélagið þurft að greiða skaðabætur. Skylda til greiðslu skaðabóta getur hins vegar fallið niður ef ástæða aflýsingarinnar eru óviðráðanlegar aðstæður. Það á t.d. við þegar flugi er aflýst vegna eldgoss. Hins vegar geta óviðráðanlegar aðstæður ekki átt við þegar flugi er aflýst vegna tæknilegra vandamála tengdum flugvélum og rekstri þeirra. Með dómi  Evrópudómstólsins var þeirri túlkun slegið fastri að tæknileg vandamál verði að telja hluta af rekstri flugþjónustu og geti þ.a.l. ekki talist til óviðráðanlegra aðstæðna. Flugmálastjórn hefur í ákvörðunum sínum tekið mið af þessum dómi. Ef flugi er aflýst vegna tæknilegra vandamála, er því skaðabótaskylda flugfélagsins að öllum líkindum til staðar. Því er mikilvægt að flugfarþegar fái upplýsingar um ástæðu aflýsingar til að þeir geti metið réttarstöðu sína.

Neytendasamtökin hvetja flugfarþega til að kanna rétt sinn og ýmsar upplýsingar um réttindi flugfarþega er að finna á heimasíðu Flugmálastjórnar.