Fæ ég alla muni greidda að fullu ef þeir verða fyrir tjóni?
Þegar tjón verður eða munum er stolið er ekki víst að hægt sé að fá upprunalegt kaupverð þeirra í bætur. Í skilmálum vátryggingasamninga er iðulega að finna afskriftarreglur sem gilda varðandi tiltekna muni sem tryggingin tekur til. Afskriftarreglurnar heimila tryggingafélaginu að afskrifa ákveðinn hluta af verðmæti tiltekins hlutar á hverju ári frá því hluturinn var keyptur. Þannig eru t.d. ákvæði um það í skilmálum helstu tryggingafélaga að af tölvum og fylgihlutum þeirra afskrifist 10% af verðmæti munanna á 6 mánaða fresti. Sum tryggingafélögin bæta svo ekki tölvur þegar þær eru orðnar 5 eða 6 ára, á meðan önnur afskrifa aldrei meira en 80% af verðmæti munanna. Afskriftarreglurnar taka almennt séð til rafmagnstækja og muna sem eðlilegt slit verður á við notkun þeirra, t.d. reiðhjól, skíðabúnaður og fatnaður.
Einnig vilja Neytendasamtökin benda fólki sem er með innbústryggingu á að gæta að því að vátryggingafjárhæðin sé í samræmi við verðmæti innbúsins, en sé verðmæti innbús meira en vátryggingafjárhæðin er um undirtryggingu að ræða og því óvíst hvort fólk muni fá tjónið bætt að fullu.