Ákvarðanir Flugmálastjórnar vegna eldgossins í fyrra

Þriðjudagur, 24. maí 2011 - 11:30

 

Nú þegar aftur er farið að gjósa hér á Íslandi er ekki úr vegi að skoða nokkrar ákvarðanir Flugmálastjórnar (FMS) í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli fyrir ári síðan. Sömu reglur eru í gildi í dag og voru fyrir ári síðan þegar gaus í Eyjafjallajökli og því eiga þessar ákvarðanir enn við.

Upplýsingaskyldu ekki sinnt, farmiði endurgreiddur
Í ákvörðun FMS nr. 13/2011 urðu ítrekaðar seinkanir, sem að endingu urðu um 32 klst, á flugi Iceland Express (IE) frá Varsjá til Keflavíkur vegna eldgossins. Farþegi sem kvartaði til FMS hafði þurft að greiða hótel og uppihald sjálfur þann tíma sem seinkunin varði og þegar kom að því að flogið var til Íslands var engar upplýsingar um flugið að sjá á upplýsingaskjám flugvallarins og að endingu missti farþeginn af fluginu þó svo hann hafi verið á flugvellinum. Farþeginn keypti sér að lokum nýtt flug til Íslands í gegnum Kaupmannahöfn. FMS áleit að IE hefði ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni nægilega vel þar sem engar upplýsingar um flugið var að finna og félagið hafði ekki samband við hann símleiðis. Af þessum sökum átti farþeginn rétt á endurgreiðslu á farmiðanum sem ekki nýttist honum og einnig átti hann rétt á endurgreiðslu kostnaðar vegna hótels og matar þann tíma sem seinkunin varði.

Flug aflýst og farmiði endurgreiddur
Í ákvörðun FMS nr. 26/2011 var flugi IE til London aflýst með stuttum fyrirvara í þrígang frá 17. apríl til 20. apríl. Þegar flugi er aflýst eiga farþegar rétt á endurgreiðslu á upphaflegu kaupverði farmiðans eða að fá flugleið breytt með sambærilegum flutningsskilyrðum til lokaákvörðunarstaðar eins fljótt og auðið er. Farþegar sem kvörtuðu til FMS ákváðu þann 20. apríl að kaupa sér nýtt flug eftir ítrekaðar seinkanir og kröfðust endurgreiðslu á farmiðanum. Í ákvörðun FMS er tekið fram að þó svo að kvartendur hafi ákveðið að kaupa sér nýtt flug hafi þau ekki fyrirgert rétti sínum til endurgreiðslu og bar IE að endurgreiða þeim farmiðann. Að auki áttu kvartendur rétt á hótelgistingu og máltíðum frá 17. til 20. apríl og sé réttur hélst þó svo kvartendur hefðu ákveðið 20. apríl að kaupa nýtt flug.

Lent í öðru landi og ferðakostnaður greiddur
Í ákvörðun FMS nr. 27/2011 áttu kvartendur flug með IE til Kaupmannahafnar 15. apríl sem tafðist til 19. apríl. Í ákvörðun FMS er tekið fram að kvartendur áttu rétt á hóteli og máltíðum sér að kostnaðarlausu dagana 15. til 19. apríl. Þegar flogið var 19. apríl var lent í Gautaborg þar sem ekki var hægt að lenda í Kaupmannahöfn. Í ákvörðun FMS var tekið fram að þegar fleiri en einn flugvöllur þjóni sama bæ, borg eða héraði, og flugrekandi býður farþega flugfar til annars flugvallar en þess sem farþeginn var skráður til skal flugfélagið greiða ferðakostnaðinn milli flugvallanna tveggja eða annars nálægs ákvörðunarstaðar, fallist farþeginn á það. Því var það niðurstaða FMS að IE ætti að greiða kostnað við ferðir milli Gautaborgar og Kaupmannahafnar.

Lent í öðru landi, máltíð og ferðakostnaður greiddur
Í ákvörðun FMS nr. 36/2011 var flugi Icelandair til Kaupmannahafnar aflýst og flaug kvartandi rúmlega sólarhring síðar með Icelandair til Þrándheims. Á meðan á biðinni stóð á Íslandi var kvartanda séð fyrir gistingu og máltíðum, en eftir komuna til Þrándheims fékk kvartandi hins vegar enga aðstoð. FMS áleit að flugfélagið ætti að greiða kostnað við ferðir kvartanda á milli Þrándheims og Kaupmannahafnar og kostnað vegna máltíða þangað til komið var til lokaákvörðunarstaðar, þ.e. Kaupmannahafnar.