Alþjóðadagur neytenda er í dag - Kallað eftir betri stafrænum heimi

Miðvikudagur, 15. mars 2017 - 11:00

Neytendasamtök um allan heim taka höndum saman 15. mars á ári hverju.  Í ár er sjónum beint að öryggi neytenda í hinum stafræna heimi #BetterDigitalWorld.

Alþjóðasamtök neytenda (Consumer International) kalla eftir auknu öryggi, auknu aðgengi, auknum skilningi og úrbótum. Ör tækniþróun undanfarinna ára hefur haft afgerandi áhrif á líf neytenda. Hraðinn hefur verið slíkur að á sumum sviðum hefur öryggi neytenda setið á hakanum. Fólk hefur áhyggjur af því hversu örugg gögnin þeirra séu og ekki að ástæðulausu. Mörgum milljónum persónulegra gagna á netinu var stolið eða þau hreinlega týndust á árinu 2015.

Alþjóðasamtök neytenda hafa einnig af því áhyggjur að tæknin er alls ekki aðgengileg fyrir alla. Í þróunarlöndum hafa einungis 10% íbúa aðgang að internetinu en í ríkustu löndunum er hlutfallið 80%. Þá hefur fólk áhyggjur af því hvað hvernig farið er með gögnin sem það setur á netið. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðasamtökum neytenda hafa 74% neytenda áhyggjur af því hvernig fyrirtæki nota gögnin þeirra.

Amanda Long er formaður Alþjóðasamtaka neytenda.

“Það eru neytendur sem munu keyra áfram vöxt stafræna hagkerfisins og sá vöxtur gæti hæglega tafist ef neytendur treysta ekki þeim vörum og þjónustu sem þeim býðst. Bæði stjórnvöld og viðskiptalífið hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Neytendasamtök um allan heim leggja áherslu á að hinn stafræni heimur njóti trausts neytenda”.