Alþjóðadagur neytendaréttar

Fimmtudagur, 15. mars 2018 - 10:45

Þann 15. mars á hverju ári er haldinn alþjóðadagur neytendaréttar (e. World Consumer Rights Day), en í ár er m.a. barist fyrir auknu trausti neytenda á hinum stafræna heimi. Dagurinn er skipulagður af Alþjóðasamtökum neytenda (Consumers International) og neytendasamtök um allan heim sameinast þennan dag undir myllumerkinu #BetterDigitalWorld. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi þess að neytendur hafi aðgang að sanngjarnri og öruggri internetþjónustu og bættu öryggi, og að gripið verði til aðgerða gegn svikastarfsemi á netinu.

Nauðsynlegt er fyrir neytendur að hafa aðgang að öflugri og öruggri internetþjónustu til að geta verslað af netinu með öruggum hætti. Á alþjóðadegi neytendaréttar kalla neytendasamtök um allan heim því eftir bættum aðgangi að netinu, en talið er að aðeins helmingur jarðarbúa hafi aðgang að því.

Samkvæmt könnun CIGI-IPOS, sem framkvæmd var árið 2017, valdi helmingur þeirra sem eru með nettengingu að versla ekki á netinu vegna þess að þeir treysta ekki slíkum viðskiptum. Stór þáttur í þessu vantrausti neytenda er hræðsla yfir því að seljandinn reyni að svindla á þeim, t.d. með því að bæta við einhvers konar aukakostnaði. Til þess að stemma stigu við þessu vantrausti er mikilvægt að yfirvöld grípi til aðgerða og að netverslanir séu með skýra og sanngjarna skilmála og sanngjarna verðlagningu, og veiti neytendum ríkan rétt til að hætta við kaup.

Amanda Long, framkvæmdastjóri Alþjóðasamtaka neytenda, segir: „Tilkoma netverslunar hefur aukið vöruúrval og þægindi gífurlega mikið. En aukin netverslun þýðir ekki endilega að traust aukist samhliða. Á Alþjóðadegi neytendaréttar köllum við ekki einungis eftir bættu aðgengi að netverslunum heldur einnig auknu trausti. Við viljum að neytendur séu sannfærðir um að greiðslur sem þeir framkvæma og þær vörur sem þeir kaupa séu öruggar. Það er einungis hægt að nýta sér möguleika netverslunar til fulls ef neytendur treysta henni.“

Hægt er að sjá á gagnvirku korti hvernig neytendasamtök um allan heim munu vekja athygli á þessum degi.