Út er komin ársskýrsla Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna vegna ársins 2010 og er skýrslan aðgengileg hér fyrir neðan fréttina.
Á árinu bárust Neytendasamtökunum 10.022 erindi, og voru flest þeirra frá félagsmönnum samtakanna, en utanfélagsmenn fylgdu þar fast á eftir. Flest erindanna vörðuðu raftæki, fjármála- og innheimtufyrirtæki, bifreiðar og önnur farartæki og fjarskiptafyrirtæki. Í fimmta sæti voru svo fyrirspurnir vegna húsaleigumála og jukust þær um 90% milli ára.
Þá annaðist Leiðbeininga- og kvörtunarþjónustan milligöngu í 199 kvörtunarmálum á árinu. Flest þeirra vörðuðu Evrópsku neytendaaðstoðina, þ.e.a.s. neytendaviðskipti milli landa innan EES-svæðisins. Nánari upplýsingar má finna á www.ena.is, en sérstaka ársskýrslu Evrópsku neytendaaðstoðarinnar er að finna hér. Þar á eftir komu svo kvörtunarmál er vörðuðu fjarskiptafyrirtæki, fjármála- og innheimtufyrirtæki og raftæki.
Ítarlegar tölfræðiupplýsingar, auk dæma um fyrirspurnir og kvörtunarmál er að finna í skýrslunni sjálfri en þar er jafnframt að finna yfirlit yfir þær kvörtunar- og úrskurðarnefndir sem Neytendasamtökin eiga aðild að.