Átta lágmarkskröfur neytenda

Átta lágmarkskröfur neytenda

Alþjóðadagur neytendaréttar er 15. mars. Þá er meðal annars minnst sögulegrar yfirlýsingar fyrrum forseta Bandaríkjanna, John F. Kennedy frá 15. mars 1962 um grundvallarréttindi neytenda.

Yfirlýsingin leiddi að lokum til alþjóðlegrar viðurkenningar ríkisstjórna og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti á árinu 1985 sérstakar leiðbeiningar um neytendavernd. Þar segir m.a. að allur almenningur, án tillits til tekna eða félagslegrar stöðu, hafi ákveðin lágmarksréttindi sem neytendur. Í áranna rás hefur aukist við þessar kröfur og er nú talað um átta lágmarkskröfur sem mynda grunninn að vinnu neytendasamtaka um allan heim:

Réttur til að fá grunnþörfum mætt – Að hafa aðgang að grundvallarvörum og þjónustu, en þar falla undir t.d. matvæli, fatnaður, húsaskjól, heilbrigðisþjónusta, menntun og vatn.

Réttur til öryggis – Að njóta verndar gagnvart vörum, framleiðsluháttum og þjónustu sem ógna öryggi neytenda.

Réttur til upplýsinga – Að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta mótað skynsamlegt val og ákvarðanir og vernd gegn misvísandi og röngum upplýsingum.

Réttur til að velja – Að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum.

Réttur til áheyrnar – Að sjónarmiða neytenda sé gætt og tekið sé fullt tillit til hagsmuna þeirra hjá stjórnvöldum og við þróun á vörum og þjónustu.

Réttur til úrlausna – Að eiga rétt á sanngjörnum úrlausnum á réttmætum bótakröfum í tengslum við kaup á vörum og þjónustu.

Réttur til fræðslu – Að eiga rétt á fræðslu sem gerir kleift að velja vöru og þjónustu á upplýstan hátt og af þekkingu á réttindum og skyldum neytenda.

Réttur til heilbrigðs umhverfis – Að eiga, við leik og starf, rétt á umhverfi sem ógnar ekki velferð fólks, hvorki nú né á komandi árum.