Bankaábyrgðir

Ein af þeim tryggingum sem gert er ráð fyrir að leigjandi geti lagt fram vegna leigusamninga er bankaábyrgð. Bankaábyrgð er sérstakur samningur sem leigjandi gerir við banka sem þá ábyrgist að greiða leigusala ábyrgðina undir vissum kringumstæðum. Hægt er að fá bankaábyrgðir í öllum viðskiptabönkunum.

Hver eru skilyrði bankaábyrgðar?
Almennt setja bankar það skilyrði fyrir útgáfu bankaábyrgðar að fjárhæð ábyrgðarinnar sé lögð inn á handveðsettan reikning í bankanum. Í sumum tilvikum getur trygging verið í öðru formi og eins setja sumir bankar það skilyrði að viðkomandi sé í viðskiptum við bankann. Í sumum tilvikum er litið til viðskiptasögu viðkomandi þegar metið er hvaða tryggingu bankinn tekur fyrir útgáfu ábyrgðar.

Hvað kostar bankaábyrgð?
Kostnaður vegna bankaábyrgðar er misjafn eftir bönkum. Tekið er fast gjald vegna skjalagerðar sem er á bilinu 2.000 – 4.000 kr. eftir bönkum. Einnig er tekin þóknun vegna útgáfu bankaábyrgðar sem er á bilinu 0,5 – 5% af upphæð ábyrgðarinnar og flestir bankarnir hafa lágmark á þóknuninni sem er 4.000 kr. Þóknunin fer einnig eftir því hversu lengi bankaábyrgðin á að gilda, en algengt er að fyrstu 6 mánuðir ábyrgðarinnar séu dýrari en þeir sem á eftir koma. Ekki virðist vera neitt hámark á því hversu lengi bankaábyrgð getur verið í gildi.

Hver eru skilyrði þess að banki greiði vegna bankaábyrgðar?
Sameiginleg skilyrði allra bankanna eru að fram komi skrifleg krafa frá leigusala þar sem skýrt er greinilega frá því hvaða kröfu hann gerir og af hvaða tilefni. Gerð er krafa um að leigusali sýni fram á að hann eigi þá kröfu sem hann gerir. Ef leigusali gerir t.d. kröfu í bankaábyrgðina vegna vanskila leigjanda á greiðslu húsaleigu, þarf leigusali að sýna fram á að vanskilin hafi raunverulega orðið t.d. með framvísun yfirlits yfir þær greiðslur sem leigjandi hefur ekki greitt. Ef ástæða kröfunnar eru t.d. skemmdir á leiguhúsnæði ætti leigusali að þurfa að framvísa reikningi vegna skemmdanna.

Þrátt fyrir ofangreindar kröfur þarf að hafa í huga að bankaábyrgð er sjálfstæður samningur sem tengist húsaleigusamningnum aðeins óbeint. Bankinn sem gefur út bankaábyrgðina getur ekki skipt sér af ágreiningi sem er á milli aðila leigusamnings. Þó verður að telja eðlilegt að bankinn hafi samband við leigjanda þegar komin er krafa frá leigusalanum í ábyrgðina, og geri leigjanda grein fyrir því og gefi stuttan frest svo aðilar geti reynt að komast að samkomulagi. Takist það ekki er bankanum þó skylt að greiða ef leigusali hefur sýnt fram á vanefndir leigjanda á leigusamningnum.

Hverjir eru helstu kostir bankaábyrgðar?
Helsti kostur bankaábyrgðar er sá að peningar leigjandans eru geymdir á öruggum stað meðan á leigutíma stendur. Leigjandi þarf ekki að greiða leigusala háa fjárhæð við upphaf leigutíma, hugsanlega til leigusala sem hann veit lítil sem engin deili á. Leigjandi getur því verið viss um að ef hann stendur við sinn hluta leigusamningsins getur hann gengið að fjárhæð bankaábyrgðarinnar á vísum stað að leigutíma loknum. Húsaleigulögin gera ráð fyrir því að leigusala sé skylt að halda tryggingafé aðskildu frá eigin fé (sjá nánari umfjöllun um tryggingarfé hér), en erfitt og jafnvel ómögulegt getur verið fyrir leigjanda að ganga úr skugga um að svo sé allan leigutímann. Þá er bankaábyrgð einnig örugg trygging ef leigusali skyldi verða gjaldþrota, en gerist það getur í sumum tilvikum verið erfitt fyrir leigjanda að endurheimta tryggingafé frá gjaldþrota leigusala enda ekki alltaf sem farið er að þeim reglum að halda tryggingafé aðskildu frá eigin fé. Þegar leigusalinn er félag getur staða leigjandans verið enn erfiðari við að endurheimta tryggingafé enda í flestum tilvikum enginn persónulega ábyrgur fyrir fjárskuldbindingum félagsins.