Ber mér að greiða umsýslugjald fasteignasala?

Miðvikudagur, 4. maí 2016

Sú þóknun sem fasteignasalar taka vegna sölu fasteignar getur verið mismunandi, en dæmin sýna að hún getur verið allt frá 1,7% og upp í 2,5% af söluverði eignar. Uppgefið verð til neytanda skal þó ávallt vera að meðtöldum öllum opinberum gjöldum, þ.m.t. virðisaukaskatti. Þrátt fyrir það hefur verið töluvert um að fasteignasalar gefi söluþóknunarprósentu upp án virðisauka, sem vissulega veldur því að söluþóknunin er töluvert hærri þegar upp er staðið, en ítarlega umfjöllun um þetta atriði má finna hér.

Neytendur leita oft til Neytendasamtakanna vegna umsýslugjalds sem kemur til viðbótar söluþóknun og kaupanda eignar er gert að greiða. Neytendasamtökin hafa lengi gagnrýnt töku gjaldsins og Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að gjaldið brjóti gegn góðum viðskiptaháttum þegar ekki hefur verið gerður sérstakur samningur við kaupendur.

Innifalið í umsýslugjaldi fasteignasala er þinglýsing skjala en ekkert kemur í veg fyrir að neytendur sjálfir geti farið með gögn til þinglýsingar. Þegar enginn sérstakur þjónustusamningur hefur verið gerður við fasteignasölu um gjaldið þá getur fasteignasala ekki farið fram á að neytandi greiði það. Það er því mikilvægt að neytendur séu meðvitaðir um þetta og hafni því að skrifa undir slíkan samning, vilji þeir ekki að fasteignasala sjái um þessa þætti. Algengt er að fasteignasölur fari fram á yfir 50.000 krónur vegna þjónustunnar.

Því hefur verið haldið fram af fasteignasölum að gjaldið sé einnig tilkomið svo fasteignasali geti gætt hagsmuna kaupanda, rétt eins og hann gætir hagsmuna seljanda. Þetta stenst hins vegar ekki skoðun, enda segir í lögum um sölu fasteigna og skipa nr. 70/2015 að fasteignasala beri að gæta hagsmuna bæði seljanda og kaupanda. Það er því skylda fasteignasala óháð því hvort kaupandi ákveður að gera sérstakan þjónustusamning við fasteignasala vegna ýmissa atriða, svosem þinglýsingu gagna.