Breyta þarf landbúnaðarstefnunni strax

Þriðjudagur, 3. október 2006

 

Á þingi Neytendasamtakanna sem haldið var 29.-30. september sl. var samþykkt ályktun þar sem krafist er breytingar á stefnunni í landbúnaðarmálum. Þar er bent á að á sama tíma og neytendur þurfa að greiða mjög hátt verð fyrir landbúnaðarvörur og opinber stuðningur við landbúnað hér sé einn sá mesti í heiminum, er afkoma margra bænda óviðunandi. Stefnan í landbúnaðarmálum hafi því beðið skipbrot fyrir löngu. Á þessum vanda verði að taka. Í ályktuninni koma fram tillögur til úrbóta. Ályktunin er eftirfarandi:

“Hátt verð innlendra landbúnaðarvara er vandamál hér á landi. Íslenskir neytendur borga hæsta verð í heimi fyrir innlendar landbúnaðarvörur. Þetta leiðir einnig til hærra verðs á ýmsum öðrum matvörum sem eru í samkeppni við landbúnaðarvörur. Á sama tíma er opinber stuðningur, í formi greiðslna úr ríkissjóði og markaðsstuðnings með innflutningskvótum og ofurtollum, einn sá mesti í heiminum. Þrátt fyrir þetta er afkoma margra bænda óviðunandi, sérstaklega sauðfjárbænda. Því hefur stefnan í landbúnaðarmálum hér á landi beðið skipbrot fyrir löngu. Stjórnvöld eiga að taka á þessum vanda á ábyrgan hátt og með hagsmuni allrar þjóðarinnar að leiðarljósi. Um leið verði reynt að tryggja alhliða starfsemi í sveitum landsins til hagsbóta fyrir bæði neytendur, framleiðendur og seljendur vöru og þjónustu. Í skýrslu hagstofustjóra um leiðir til að lækka verð á matvörum kom fram að ef lækka á útgjöld heimilanna vegna kaupa á matvörum kemur afnám tolla á innfluttar landbúnaðarvörur heimilunum mest til góða.

Þing Neytendasamtakanna hvetur því til þess að stefnan í landbúnaðarmálum verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Markmiðið er fyrst og fremst að tryggja neytendum sambærilegt verð við það sem er í nágrannalöndum okkar. Þetta verði gert með tvennum hætti:          

  1. Tollar og innflutningskvótar á kjúklinga- og svínakjöti og eggjum verði lagðir af og innflutningur gefinn frjáls svo fremi að innfluttu vörurnar uppfylli eðlilegar heilbrigðiskröfur. Fákeppni ríkir í framleiðslu á þessum vörum sem í eðli sínu er verksmiðjuframleiðsla, auk þess sem innflutt fóður er stærsti kostnaðarliður í þessari framleiðslu. Jafnframt þarf að tryggja að verð á öllum aðföngum til þessara greina verði sambærilegt við það sem er í nágrannalöndum okkar. Fákeppni ríkir í sölu á kjarnfóðri og því hefur verið haldið fram að kjarnfóður sé mun dýrara en í nágrannalöndunum. Nú hafa tollar verið felldir niður á innfluttu korni til fóðurgerðar en einnig þarf að fella niður tolla á innfluttum kjarnfóðurblöndum til að skapa samkeppni á þessu sviði. Það myndi opna möguleika framleiðenda á að flytja sjálfir inn tilbúið kjarnfóður og þannig veita þeim tveimur fóðurblöndunarstöðvum sem eru einráðar á þessum markaði nauðsynlegt aðhald.
  2. Tollar á innfluttar mjólkurvörur, nautakjöt og lambakjöt lækki verulega þegar í stað og lækki síðan áfram í áföngum og falli niður innan fárra ára. Neytendasamtökin fallast á að þeir tollar sem lagðir verða á þessar vörur renni til bænda í þessum greinum til að styrkja aðlögun þeirra að breyttum forsendum. Einnig verði innflutningskvótar lagðir af og innflutningur gefinn frjáls að því tilskildu að innfluttu vörurnar uppfylli eðlilegar heilbrigðiskröfur.

Neytendasamtökin hafa ítrekað krafist breytinga á stefnunni í landbúnaðarmálum um leið og þau hafa fallist á að veittur sé eðlilegur aðlögunartími í takmarrkaðann tíma. Því geta samtökin fallist á að enn sé veittur aðlögunartími í "hefðbundnum" búgreinum. Þing Neytendasamtakanna harmar þann drátt sem orðið hefur á samningaviðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þó er ljóst að þeim samningaviðræðum mun ljúka með samningum þar sem heimsviðskipti með landbúnaðarvörur verða aukin, enda er það ein helsta krafa fátækari landa. Því er mikilvægt að við nýtum tímann vel. Þing Neytendasamtakanna telur þessar tillögur nauðsynlegar eigi íslenskur landbúnaður að lifa af í framtíð þar sem aðstæður framleiðenda þessara vara verða að mestu þær sömu og á við um aðrar vörur sem neytendur kaupa.”