Breytingar á neyslusköttum

mánudagur, 15. september 2014

Fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs að virðisaukaskattur á matvæli verði hækkaður úr 7% í 12%. Fram hefur komið að tekjulægstu heimilin verja 17,6% ráðstöfunartekna sinna í matar- og drykkjarvörur, á móti 10,7% hjá tekjuhæstu heimilunum. Neytendasamtökin mótmæla þessum áformum harðlega enda ljóst að þetta kemur verst niður á tekjulægri heimili.

Stjórnvöld halda því fram að þetta sé til einföldunar á skattakerfinu. Ekki er hægt að fallast á þau rök enda verða áfram tvö virðisaukaskattsþrep, þó svo að annað hækki um 5 prósentustig en hitt lækki um 1,5 prósentustig.

Minnt er á að það voru einmitt sömu flokkar í ríkisstjórn þegar ákveðið var að lækka virðisaukaskatt á matvörur úr 14% í 7%. Neytendasamtökin studdu eindregið þá aðgerð og hljóta því að spyrja hvað hafi breyst síðan þá.

Það ber að taka fram að Neytendasamtökin styðja hugmyndir um að leggja vörugjald niður enda er það til þess fallið að einfalda skattakerfið, en vörugjaldskerfið er mjög flókið. Auk þess er það oftar en ekki lagt á vörur sem eru nauðsynlegar heimilunum. Einnig er minnt á að þessar sömu vörur eru í hærra virðisaukaskattsþrepinu og því eru opinberar álögur á þessar vörur mjög miklar. Niðurfelling vörugjalda og lækkun hærra virðisaukaskattsþrepsins vegur þó að mati Neytendasamtakanna ekki upp á móti mikilli hækkun virðisaukaskatts á matvæli.

Neytendasamtökin gera ráð fyrir að hækkun á matarskatti komi fram í verðlagi um leið og hún tekur gildi og hafi þar með umtalsverð áhrif á verðtryggingu húsnæðislána. En samtökin hafa áhyggjur af því að lækkanir í efra þrepi virðisaukaskatts og niðurfelling vörugjalda muni ekki skila sér til neytenda í sama mæli, enda hafa dæmin sýnt að slíkar lækkanir skila sér í mörgum tilvikum illa  til neytenda, nema því aðeins að  stjórnvöld komi á fót sérstöku eftirliti til að fylgjast með að lækkanir skili sér í verðlagi. Gera Neytendasamtökin því þá kröfu, verði þessar tillögur að veruleika, að því verði sérstaklega fylgt eftir, að umræddar lækkanir skili sér til neytenda.