Ég keypti gallaða vöru. Hvað get ég gert?

mánudagur, 23. maí 2016

Vörur eiga að vera í samræmi við samning, þ.e. í samræmi við lýsingar seljanda á þeim, henta til þeirra nota sem neytandinn ætlar þeim, henta til sömu nota og sambærilegar vörur og  vera í samræmi við réttmætar væntingar neytandans hvað varðar gæði og notagildi. Þá skulu fylgja vörunni leiðbeiningar um uppsetningu o.þ.h. Ef þessi atriði eru ekki í lagi er varan gölluð. Sé vara gölluð á neytandi rétt á að velja milli viðgerðar eða nýrrar afhendingar, sé slíkt ekki ógerlegt eða óhóflegt. Viðgerðir og skipti á vörum skulu fara fram án verulegra óþæginda og kostnaðar fyrir neytandann og innan sanngjarnra tímamarka. Sé viðgerð eða afhending nýrrar vöru ekki möguleg á neytandinn rétt á afslætti eða því að rifta kaupunum (skila vörunni og fá endurgreitt) sé galli verulegur.