Eigin vörumerki verslana draga úr valmöguleikum neytenda

Miðvikudagur, 30. apríl 2003

 

Átta norræn neytendasamtök álykta um þessa varhugaverðu þróun

Neytendasamtök á Norðurlöndum krefjast þess að nafn framleiðenda og upplýsingar um uppruna vara sé að finna á öllum vörum sem markaðsettar eru af verslanakeðjum sem eigin sérvara. Neytendasamtök á Norðurlöndum hafa áhyggjur af því að valmöguleikar neytenda minnki samfara auknu framboði á slíkum vörum.

Eigin merkjavörur verða sífellt algengari í hillum verslana. Á Íslandi er t.d. hægt að kaupa kaffi, salernis- og eldhússpappír, brauð og margt fleira sem eingöngu er merkt með nafni viðkomandi keðju.

Neytendasamtök á Norðurlöndum telja að þessi þróun muni leiða til einsleitari vöru auk þess sem neytendur fá ekki upplýsingar um uppruna vörunnar eða nafn framleiðenda. Eigin merkjavara getur þýtt að varan sé framleidd af ólíkum framleiðendum og gæði vörunnar geta því verið misjöfn.

Neytendur eiga rétt á að hafa val og að geta hafnað vörum frá tilteknum löndum eða framleiðendum. Það val á ekki að eiga sér stað hjá verslunarkeðjunum. Þess vegna krefjast neytendasamtök á Norðurlöndum þess að nafn framleiðanda og upplýsingar um uppruna vara sé að finna á öllum vörum sem markaðsettar eru sem eigin sérvara. Ekki síst er þetta mikilvægt til að neytendur njóti þess réttar að geta haft áhrif með vali sínu hverju sinni.

Þessi ályktun var samþykkt af neytendasamtökum á Norðurlöndum á fundi Norrænu neytendanefndarinnar í framhaldi af ráðstefnu sem nefndin hélt í Stokkhólmi 24 apríl undir yfirskriftinni "Samkeppni á matvörumarkaði - hver hagnast?"

Ályktunin var samþykkt af eftirtöldum neytendasamtökum: Neytendasamtökunum, Grønlands forbrugerråd, Brúkarasamtakið í Færeyjum, Forbrugerrådet í Danmörku, Forbrukerrådet í Noregi, Sveriges Konsumentråd, Sveriges Konsumenter i Samverkan, Finlands Konsumentforbund.