Eldri lög

Eldri lög Neytendasamtakanna - samþykkt 2014 - breytt 2018.

 

Lög Neytendasamtakanna (brottfallin)

1. KAFLI - Almenn ákvæði

1. gr.

Nafn samtakanna er Neytendasamtökin. Heimili og varnarþing er í Reykjavík. Neytendasamtökin eru hagsmunasamtök neytenda á Íslandi. Neytendasamtökin eru sjálfstæð og óháð einstaklingum, félögum, fyrirtækjum, samtökum, stjórnmálaflokkum og opinberum aðilum.

2. gr.

Tilgangur Neytendasamtakanna er að gæta hagsmuna neytenda í þjóðfélaginu, þau skulu ætíð taka afstöðu til mála í samræmi við hagsmuni neytenda óháð öðrum sjónarmiðum.

Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná meðal annars með því:

    a. að vinna að því að sjónarmið neytenda séu virt þegar ákvarðanir eru teknar eða reglur settar er
       varða hagsmuni neytenda,
    b. að annast útgáfu-, rannsóknar-, ráðgjafa- og fræðslustarfsemi til þess að auka skilning á
       hagsmunamálum neytenda, þar á meðal að auka verð- og vöruþekkingu þeirra,
    c. að styðja réttmætar kröfur einstakra neytenda og berjast fyrir því að réttur neytenda sé virtur,
    d. að vinna að umbótum á löggjöf til hagsbóta fyrir neytendur.

 

3. gr.

Einstaklingar sem orðnir eru 18 ára geta orðið félagar í Neytendasamtökunum. Félagsmenn njóta fullra réttinda, séu þeir skuldlausir við samtökin, og hafa kosningarétt og kjörgengi í kosningum til trúnaðarstarfa fyrir samtökin, en þeir einir geta neytt atkvæðaréttar síns í stjórnarkjöri sem eru þingfulltrúar á þingi Neytendasamtakanna.

4. gr.

Félög eða samtök sem skuldbinda sig til að vinna að hagsmunamálum neytenda geta gerst stuðningsaðilar Neytendasamtakanna eða tekið upp skipulagstengsl við þau. Óski félag eða samtök eftir stuðningsaðild eða skipulagstengslum þarf samþykki stjórnar Neytendasamtakanna. Fáist slíkt samþykki skal stjórn Neytendasamtakanna gera sérstakt samkomulag við viðkomandi félag eða samtök um það með hvaða hætti stuðningsaðildin eða skipulagstengslin skuli vera.

5. gr.

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti atkvæða ef ekki er öðruvísi kveðið á um í lögum þessum (sbr. 18. gr.).

Við uppstillingu frambjóðenda til stjórnar og við val á aðilum til setu í kjörnum nefndum skal eins og unnt er gæta jafnræðis milli kynja.

Samtökin skulu setja sér eða gangast undir siðareglur sem gilda um starfshætti og ábyrgð stjórnarmanna og starfsfólks. 

Sá stjórnarmaður, nefndarmaður eða starfsmaður sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Ríki óvissa eða ágreiningur um vanhæfi skal þegar í stað vekja athygli formanns samtakanna á því og úrskurðar hann um vanhæfi til meðferðar einstakra mála. Maður, sem vanhæfur er til meðferðar máls, skal yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess.

 

2. KAFLI - Þing Neytendasamtakanna

6. gr.

Þing Neytendasamtakanna er æðsta vald í málefnum þeirra. Þing skal haldið annað hvort ár í októbermánuði. 

Stjórn Neytendasamtakanna getur kvatt saman aukaþing telji hún það nauðsynlegt. Til þings og aukaþings skal boðað með a.m.k. mánaðar fyrirvara með auglýsingu í  a.m.k. einum fjölmiðli og á heimasíðu samtakanna. Einnig skal félagsmönnum sendur tölvupóstur eftir því sem við verður komið.

7. gr.

Allir félagar Neytendasamtakanna geta verið þingfulltrúar á þingi samtakanna, séu þeir skuldlausir við samtökin, enda tilkynni þeir þátttöku með a.m.k. viku fyrirvara.

8. gr.

Þing Neytendasamtakanna er lögmætt ef löglega er til þess boðað. 

9. gr.

Dagskrá reglulegs þings samtakanna skal vera:

     a. Þingsetning.
     b. Kjör þingforseta og annarra embættismanna.
     c. Skýrsla stjórnar.
     d. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu og samþykktar.
     e. Lagabreytingar.
     f. Stefnumótun.
     g. Kjör þriggja manna kjörstjórnar.
     h.  Kosning tólf stjórnarmanna (annarra en formanns).
     i. Kosning formanns.
     j. Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara, úr hópi annarra en stjórnarmanna og
       starfsmanna.
     k. Kosning þriggja manna í uppstillinganefnd.
     l. Ný stjórn tekur við.
    m. Önnur mál.

Þingi er heimilt að breyta röð dagskrárliða, þó þannig að kjör stjórnar og trúnaðarmanna má ekki færa framar í dagskránni.

 

3. KAFLI - Stjórnar- og formannskjör Neytendasamtakanna

10. gr.

Stjórn Neytendasamtakanna skal auglýsa eftir framboðum til formanns og stjórnar á heimasíðu samtakanna og í a.m.k. einum fjölmiðli fyrir 1. ágúst það ár sem þing er haldið. Framboð skulu berast framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna eigi síðar en 15. ágúst sama ár. Uppstillinganefnd og framkvæmdastjóri ganga úr skugga um að frambjóðendur njóti kjörgengis, sbr. 3. og 14. gr. Uppfylli frambjóðendur ekki skilyrði 3. gr. skal þeim gefinn vikufrestur til að bæta úr því.

11. gr.

Stjórn Neytendasamtakanna kýs tvo menn í uppstillinganefnd, til viðbótar við þá þrjá sem kjörnir eru á þingi samtakanna, sbr. 9. gr., eigi síðar en í maí það ár sem reglulegt þing er haldið. Stjórn Neytendasamtakanna er heimilt að setja reglur fyrir uppstillinganefnd þar sem kveðið er nánar á um starfshætti hennar og hlutverk. Uppstillinganefnd er heimilt að leita eftir frekari framboðum til stjórnar, þ.m.t. til formanns, eftir að framboðsfrestir lýkur. Uppstillingarnefnd gerir tillögu um næstu stjórn samtakanna fyrir næsta kjörtímabil. Tillögur uppstillinganefndar  skulu liggja fyrir og afhentar framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna eigi síðar en 1. september það ár sem reglulegt þing fer fram, og skulu þær lagðar fram meðal þinggagna á þingi samtakanna. Uppstillinganefnd hefur yfirumsjón með kynningu frambjóðenda til stjórnar, þ.m.t. formanns.

12. gr.

Kosning til stjórnar, þ.á.m. formanns, er skrifleg og leynileg, og fer fram á reglulegu þingi samtakanna. Séu einungis tólf frambjóðendur til stjórnar og/eða einn frambjóðandi til formanns skoðast frambjóðendur þó sjálfkjörnir og er þá kosning óþörf, en kjöri stjórnar skal lýst á reglulegu þingi.

Kjörstjórn annast framkvæmd kosninga til stjórnar, talningu atkvæða og tryggir að kosningar fari rétt og löglega fram.

13. gr.

 Stjórn Neytendasamtakanna kýs úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera.

 

4. KAFLI – Stjórn Neytendasamtakanna

14. gr.

Stjórn Neytendasamtakanna er skipuð 13 mönnum, þ.e. tólf stjórnarmönnum auk formanns. Kjörtímabil er tvö ár. Enginn skal sitja í stjórn samtakanna lengur en fjögur kjörtímabil samfleytt.

15 gr.

Stjórn Neytendasamtakanna er æðsta vald í málefnum samtakanna milli þinga og ber ábyrgð á starfsemi samtakanna. Stjórn tekur ákvarðanir í málum sem snerta rekstur samtakanna og skipulag starfseminnar, fylgir eftir stefnumótun þings samtakanna og tekur afstöðu til stefnumarkandi mála sem samtökunum berast. Þó annast formaður og framkvæmdastjóri ráðningu starfsfólks.

16. gr.

Formaður boðar stjórnarfundi með minnst þriggja daga fyrirvara, nema brýna nauðsyn beri til að boða fund með skemmri fyrirvara. Dagskrá fundarins, ásamt nánari upplýsingum um einstaka dagskrárliði, skal fylgja fundarboði. Krefjist einn stjórnarmaður þess að stjórnarfundur sé haldinn skal gera það innan hálfs mánaðar frá því að krafa um stjórnarfund barst. Stjórnarfundir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað.  

 

5. KAFLI - Reikningsskil og lagabreytingar

17. gr.

Reikningstímabil Neytendasamtakanna er almanaksárið. Árgjöld skulu ákveðin af stjórn Neytendasamtakanna og taka samtökin einnig við styrkjum, t.d. frá opinberum aðilum.

 

18. gr.

Lögum þessum má einungis breyta á reglulegu þingi Neytendasamtakanna og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga. Lagabreytingartillögur skulu lagðar fram á skrifstofu samtakanna eigi síðar en 15. ágúst það ár sem reglulegt þing er haldið og kynntar á heimasíðu samtakanna eigi síðar en 1. september sama ár.

 

 

 

Lög Neytendasamtakanna eins og þau voru samþykkt á þingi samtakanna hinn 27. september 2014.