Enn um ólögmæta bílalánasamninga Lýsingar

Fimmtudagur, 3. febrúar 2011 - 14:45

 

Rétt fyrir jól sendu Neytendasamtökin fyrirspurn til Lýsingar vegna bílalánasamninga sem Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála hafa úrskurðað að innihaldi ólögmæta verðtryggingu.

Í fyrirspurninni var spurt hvort Lýsing myndi taka tillit til þessara ákvarðana og endurreikna umrædda bílalánasamninga þannig að hin ólögmæta verðtrygging, sem aldrei var samið um, yrði fjarlægð og neytendum endurgreitt það sem ofgreitt hefur verið. Svar Lýsingar kemur satt best að segja ekki á óvart, en í því kemur fram að félagið muni ekki endurreikna umrædda samninga þar sem félagið hafi engar forsendur til þess. Einnig kemur fram að Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála taki ekki afstöðu til einkaréttarlegra ágreiningsmála.

Rétt er það að hvorki Neytendastofa né áfrýjunarnefnd neytendamála hafa lagaheimildir til að taka afstöðu til einkaréttarlegra ágreiningsmála. Hins vegar er það deginum ljósara að umræddir samningar hafa verið innheimtir eins og um verðtryggða samninga hafi verið að ræða, og lýtur ákvörðun Neytendastofu að því að sú innheimta er og hefur verið ólögmæt þar sem ekki var samið um verðtryggingu í upphafi. Af svari Lýsingar má því ráða að félagið hyggist virða þessar ákvarðanir að vettugi og halda áfram innheimtu umræddra samninga eins og um verðtryggða samninga hafi verið að ræða. Neytendasamtökin vita ekki heldur til þess að Lýsing hafi haft frumkvæði að því að semja við neytendur um uppgjör þessara samninga, en auðvitað væru það fagleg vinnubrögð af hálfu fjármálafyrirtækis að taka tillit til ákvarðana stjórnvalda þegar ljóst er að hluti samninga sé ólögmætur. Því miður virðist að slík vinnubrögð séu víðs fjarri í þessu tilviki og er það bagalegt.

Þeir sem hafa gert samninga við Lýsingu sem falla hér undir, geta farið með sitt mál fyrir úrskurðarnefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki. Upplýsingar um nefndina er að finna hér. Að því slepptu er því miður lítið annað að gera en að fara með mál fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði.