Er leiguíbúð óíbúðarhæf?

Í húsaleigulögum er m.a. kveðið á um að leiguhúsnæði skuli við afhendingu vera hreint og í því ástandi sem almennt er talið fullnægjandi, sumsé íbúðarhæft. Telji leigjandi að húsnæðið sé ekki í viðunandi ástandi skal hann svo skýra leigusala skriflega frá því innan mánaðar frá afhendingu. Í sumum tilvikum getur svo komið til að húsnæði verði óíbúðarhæft áður en leigjandi tekur við því og fellur þá leigusamningurinn úr gildi. Reikna má með að nokkuð mikið verði að koma til, enda á leigusali almennt rétt á að bæta úr ágöllum sem leigjandi telur vera á eigninni. Það er svo leigjandinn sem þarf að sýna fram á að íbúð sé ekki í þannig ástandi að hægt sé að búa í henni.

Slík mál hafa komið fyrir kærunefnd húsamála:

Í máli nr. 2/2008 voru atvik þau að maður hafði tekið stúdíóíbúð á leigu til eins árs, en þegar samningurinn var gerður var hún langt frá því að vera tilbúin, m.a. var hvorki eldunaraðstaða né rennandi vatn í íbúðinni. Þegar kom að því að flytja inn var íbúðin þó ekki enn tilbúin, salerni verið ótengt, engin eldavél til staðar og ekkert rennandi vatn í íbúðinni. Eftir að hafa haft umráð íbúðarinnar í þrjár vikur og kvartað við leigusala, rifti leigutaki því samningnum og flutti út. Jafnframt fékk hann starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélagsins til að skoða íbúðina og lá fyrir staðfesting þeirra um ástand húsnæðisins. Kærunefndin komst því að þeirri niðurstöðu að leigutaka hefði verið rétt að rifta samningnum og að leigusala bæri að endurgreiða honum alla leigufjárhæðina.

Í máli nr. 2/2010 hafði fjölskylda tekið á leigu íbúð til eins árs. Stuttu eftir að flutt var í húsnæðið fór fjölskyldan að finna fyrir kláða og útbrotum og þurfti að leita læknisaðstoðar vegna þessa. Í ljós kom að veggjalús, sem erfitt er að útrýma, var í íbúðinni, og að eitrunarferlið tæki nokkurn tíma. Starfsmenn heilbrigðisnefndar skoðuðu íbúðina og að mati þeirra uppfyllti íbúðin ekki kröfur um hollustuhætti meðan veggjalús fyndist í henni. Það var álit kærunefndarinnar að líta yrði svo á sem lúsin hefði verið til staðar þegar í upphafi leigutíma og að hið leigða husnæði hefði því verið óíbúðarhæft frá upphafi og samningur aðila því fallinn úr gildi. Var leigusala því gert að endurgreiða leigu vegna þess tíma sem fjölskyldan dvaldi í eigninni.