Er röng grunnvísitala á húsnæðisláninu þínu?

Miðvikudagur, 16. nóvember 2016 - 10:00

Neytendasamtökin óska eftir því að félagsmenn sem tóku húsnæðislán á tímabilinu 1. mars 2016 til 1. október 2016 hafi samband við samtökin vegna úttektar sem er í vinnslu í tengslum við rangan útreikning Hagstofu Íslands. Í september kom í ljós að vísitala neysluverðs hafði verið ranglega reiknuð frá og með mars á þessu ári, sem skilaði sér í meiri hækkun á vísitölu nú í nóvember en ella hefði orðið. Fjölmargar fjármálastofnanir hafa lýst því yfir að þær muni leiðrétta grunnvísitölu lánasamninga nú í nóvember og eru Neytendasamtökin að fylgja því máli eftir.

Af þeim sökum óska Neytendasamtökin eftir því að þeir sem tóku lán á umræddu tímabili fylgist vel með því hvort umrædd leiðrétting skili sér og hafi samband ef svo reynist ekki vera.