Euro Business Guide og fleiri svikamyllur

Miðvikudagur, 15. júlí 2009

 

Ég var að fá bréf þar sem mér er boðið að skrá fyrirtækið mitt í World Business Guide. Hvað á ég að gera?

Á hverju ári fá Neytendasamtökin nokkur erindi frá fyrirtækjum og einyrkjum sem hafa skráð sig í gagnagrunna á borð við Euro Business Guide, European City Guide eða World Business Guide.

Þessi fyrirtæki eru í raun svikamyllur en fyrirtækjum er - að því er virðist þeim að kostnaðarlausu - boðið að skrá sig í bók eða bækling, samevrópskan gagnagrunn, og auglýsa sig með þeim hætti. Eftir að gengið hefur verið frá skráningu berst þó reikningur að upphæð u.þ.b. 1000 evrur sem er sagt vera árgjald fyrir skráninguna (þetta árgjald kemur fram í mjög smáu og óáberandi letri á samningseyðublaðinu). Ef fyrirtækin borga ekki er þeim svo hótað með lögsókn.

Verði fólki á að skrá fyrirtækið sitt er í kjölfarið best að neita því alfarið að greiða reikninginn og skrifa þess í stað bréf til svikamyllunnar þar sem reikningnum er mótmælt og samningnum sagt upp á þeim grundvelli að um blekkjandi og villandi samningsskilmála hafi verið að ræða. Best er þó auðvitað að hafa varann á gagnvart svona gylliboðum og sleppa því hreinlega að skrá sig!

Hagsmunasamtök fyrirtækja hafa verið með þessi mál til skoðunar hér á landi og víða erlendis eru reknar heimasíður þar sem tekið er á móti kvörtunum vegna þessa. Fyrirtækjum er bent á að hafa samband við sín hagsmunasamtök lendi þau í vandræðum.