Ferill innheimtu

mánudagur, 16. mars 2009

 

Má rukka vanskilagjald á ógreidda skuld? Hvað þarf skuldari að greiða í innheimtukostnað?

Síðastliðin áramót tóku gildi lög um innheimtu og í kjölfarið var sett reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Neytendasamtökin hafa fjallað nokkuð um þessa lagabreytingu, en þessa dagana leikur mörgum forvitni á að vita hvernig þessar lagabreytingar breyta stöðu þeirra sem eru í vanskilum. Lögin breyta svo ekki stöðu skuldara þegar kemur að málshöfðun vegna skuldarinnar eða fullnustuaðgerða (fjárnám, nauðungarsala...).

Eftir gjalddaga kröfu skal kröfuhafi senda skuldara skriflega innheimtuviðvörun, skv. 7. gr. áðurnefndra laga. Þar skal meðal annars koma fram að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafan ekki greidd innan tiltekins tíma. Kostnaður vegna slíks viðvörunarbréfs skal ekki vera hærri en 900 kr. Þá er óheimilt að bæta vanskilagjöldum eða samsvarandi gjöldum við skuldina. Þó er, eins og áður, heimilt að leggja dráttarvexti við kröfuna, en umrædd lagabreyting tók ekki til dráttarvaxta.

Eftir að innheimtuviðvörun hefur verið send, og ljóst er að skuldari mun ekki bregðast við henni, er svo heimilt að setja kröfu í svokallaða milliinnheimtu. Hámarkskostnaður vegna milliinnheimtubréfs er á bilinu 1.250 til 5.500 kr. eftir því hve höfuðstóll kröfunnar er hár. Minnst skulu líða tíu dagar milli hvers bréfs, en ekki er kveðið á um hve mörg (eða fá) þau skuli vera.

Ef innheimtuaðgerðir af þessu tagi bera ekki árangur er næsta skref oft að fara fram á fjárnám hjá skuldara.