Fjármálafyrirtæki þurfa að endurvinna traust neytenda

Föstudagur, 25. nóvember 2016 - 17:00

Ólafur Arnarson formaður Neytendasamtakanna hélt ræðu á SFF-deginum, ráðstefnu Samtaka fjármálafyrirtækja sem haldin var sl. miðvikudag. Að þessu sinni var dagurinn helgaður neytendavernd á fjármálamarkaði og þeim breytingum sem hafa átt sér stað á undanförnum misserum. Í ræðu sinni fjallaði Ólafur meðal annars um það hvernig Neytendasamtökin kappkosti að eiga gott samstarf við samtök í atvinnulífinu og einstök fyrirtæki, enda sé það báðum aðilum til hagsbóta þegar leysa þarf ágreining sem kann að skapast. Þessu til stuðnings benti Ólafur meðal annars á þær úrskurðarnefndir sem Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja hafa komið á fót.

Samtök fjármálafyrirtækja hafa staðið fyrir grunnskólakennslu í fjármálalæsi og taldi Ólafur það afar virðingarvert framtak og mikilvægt skref í átt að upplýstari neytendum. Framtakið muni skila sér í upplýstari neytendum á komandi árum og áratugum. Í kjölfarið sagði Ólafur að þrátt fyrir að ýmislegt hafi breyst til hins betra í tengslum við lántöku þá sé ýmislegt sem mætti betur fara og nefndi í því sambandi að lántökugjöld eigi að endurspegla raunkostnað við lántöku og að uppgreiðslugjöld eigi ekki að koma til. Einnig nefndi Ólafur að það væri sjálfsagður réttur neytenda að hafa aðgang að samanburðarvefsjá þar sem þeir geta séð nákvæmlega hvaða verðmunur er á milli einstakra fjármálafyrirtækja. Þannig sé stuðlað að heilbrigðri samkeppni á fjármálamarkaði.

Ólafur fjallaði einnig um þá djúpstæðu tortryggni sem ríkir af hálfu neytenda í garð íslenskra fjármálafyrirtækja í kjölfar bankahrunsins. Það sé mikið verkefni fyrir fyrirtækin að endurbyggja traust og að það komi ekki af sjálfu sér. Fjármálafyrirtæki verði að vinna sér inn þetta traust og það geri þau með verkum sínum. Í því sambandi nefndi Ólafur að það skjóti skökku við þegar fjármálafyrirtæki gangi hart á eftir neytendum vegna vanskila eftir hinn mikla forsendubrest sem var í hagkerfinu samhliða bankahruninu á sama tíma og þau tapi milljörðum við sölu eigna. Þetta sé sérstaklega ámælisvert þegar um sé að ræða fjármálafyrirtæki í eigu almennings – í eigu neytenda sjálfra.