Flýtimeðferð

Miðvikudagur, 3. mars 2010

Þurfa neytendur að greiða fyrir flýtimeðferð þegar gallaðir hlutir eru settir í viðgerð?

Þegar vara reynist gölluð og neytandi leitar til seljanda eftir úrbótum er mismunandi hversu langan tíma seljandi áætlar í viðgerð og í vissum tilfellum er neytendum boðið upp á sérstaka flýtimeðferð gegn þóknun. Í tengslum við þetta er rétt að árétta að þegar söluhlutur er gallaður og neytandi ber fyrir sig gallann innan kvörtunarfrestsins ber seljanda að bæta úr honum á eigin kostnað. Þessi viðgerð á því ekki að leiða til kostnaðar fyrir neytanda. Seljanda ber auk þess að bæta úr gallanum innan hæfilegs tíma.

Ef viðgerðin stendur yfir í meira en viku getur neytandi krafist þess að fá sambærilegan hlut til umráða á kostnað seljanda, ef slíkt telst sanngjarnt með hliðsjón af þörfum neytandans og þeim kostnaði sem það hefur í för með sér fyrir seljanda. Neytandi verður því ekki að greiða gjald fyrir flýtimeðferð nema hann vilji það, enda getur hann átt rétt á að fá lánshlut ef viðgerðin hefur staðið yfir í viku.

Ef neytendur kjósa að greiða fyrir sérstaka flýtimeðferð verða þeir að hafa í huga að slík þóknun leiðir ekki endilegra til betri þjónustu. Þess eru dæmi að neytendur hafa greitt fyrir flýtimeðferð en samt ekki fengið bætt úr gallanum innan viku. Neytendasamtökin vilja því hvetja neytendur til að hafa varann á þegar kemur að þess háttar þóknun og hafa í huga rétt sinn, sem er að fá úrbætur á galla innan hæfilegs tíma.