Fyrirkomulag neytendamála

Föstudagur, 18. júní 2010

Eftirfarandi ályktun var send til ráðherra neytendamála, fjármálaráðherra og forsætisráðherra, þann 15. júní sl.

Ályktun frá Neytendasamtökunum:

Sameina á Neytendastofu og talsmann neytenda í eina stofnun
Þegar ákveðnar voru breytingar á skipulagi á opinberu neytendastarfi fyrir 5 árum voru Neytendasamtökin andsnúin því að sett yrði á laggirnar embætti talsmanns neytenda. Nú þegar rætt er um sameiningu stofnana hins opinbera telja samtökin tímabært að Neytendastofa og embætti talsmann neytenda verði sameinað og nafninu breytt í  Umboðsmaður neytenda.

Þjónustusamningur á fleiri sviðum
Einnig telja Neytendasamtökin eðlilegt að fleiri ráðuneyti komið að þjónustusamningi milli ríkis og Neytendasamtakanna. Þótt dómsmála- og mannréttindaráðuneytið fari með neytendamálin falla þau undir mörg ráðuneyti. Neytendasamtökin lýsa sig reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um þetta, enda er það skoðun samtakanna að það sé í mörgum tilvikum ódýrara að fela félagasamtökum ýmis verkefni á því sviði sem þau starfa á, í stað þess að stjórnvöld sinni þeim.

Meðfylgjandi er greinagerð til frekari  rökstuðnings.

Greinargerð:

Stjórnvöld hafa boðað frekari niðurskurð á ríkisútgjöldum, m.a. með sameiningu stofnana. Það er skoðun Neytendasamtakanna að á neytendasviði megi sameina starfsemi Neytendastofu og embætti talsmanns neytenda og er það í samræmi við tillögur sem fram komu í skýrslu sem viðskiptaráðuneytið gaf út á árinu 2008 um nýja sókn í neytendamálum.

Fyrirkomulag neytendamála
Að neytendamálum starfa nú Neytendastofa, Neytendasamtökin og talsmaður neytenda, auk hagsmunasamtaka og stofnana á ákveðnum sviðum neytendamála.
Neytendastofa er opinber stofnun sem sinnir eftirliti með ýmsum lögum á neytendasviði.

Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök um hagsmuni neytenda í þjóðfélaginu. Neytendasamtökin reka m.a. leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu þjónustu (þar sem neytendur geta fengið leiðbeiningar um lagalegan rétt sinn og aðstoð við úrlausn mála.

Megin verkefni talsmanns neytenda er að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd.
Það er skoðun Neytendasamtakanna að hlutverki talsmanns neytenda sé ágætlega fyrir komið hjá Neytendasamtökunum og um leið hjá nýrri stofnun, Umboðsmanni neytenda. Neytendasamtökin hafa sinnt því hlutverki að vera talsmaður neytenda allt frá stofnun samtakanna árið 1953.

Norræn fyrirmynd
Þegar ákveðið var á Alþingi fyrir fimm árum að breyta opinberu neytendastarfi gerðu Neytendasamtökin ásamt aðilum vinnumarkaðarins mikilvægar athugasemdir við þær breytingar. Snerust athugasemdirnar bæði um stofnun sérstaks embætti talsmanns neytenda og að verksviði Neytendastofu. Það var skoðun Neytendasamtakanna að stofnað yrði, að norrænni fyrirmynd, embætti umboðsmanns neytenda. Jafnframt að farin yrði sama leið og í Svíþjóð og Finnlandi þar sem umboðsmaður neytenda er einnig forstjóri Neytendastofu. Þess má geta að þegar þetta frumvarp var afgreitt á Alþingi var það samþykkt með atkvæðum þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þingmenn Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins greiddu atkvæði gegn og þingmenn Vinstri grænna sátu hjá.

Niðurskurður
Á fjárlögum 2010 urðu Neytendasamtökin fyrir meiri niðurskurði en yfirlýsingar stjórnvalda um 10% niðurskurð yfir línuna, gerðu ráð fyrir. Breytingar voru gerðar á Neytendastofu þar sem verkefni voru flutt á milli stofnanna og embætti talsmanns neytenda var skorið niður um 10% úr 17 niður í 15,6 milljónir króna.
Þjónustusamningur við Neytendasamtökin var skorinn niður um tæp 30%, en í þeim samningi er Neytendasamtökunum falið að reka leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu fyrir neytendur. Þetta gerðist á sama tíma og fyrirspurnum frá neytendum fjölgaði mikið á milli ára. Neytendasamtökin tóku ákvörðun um að halda óskertri þjónustu út árið í samræmi við þjónustusamning við ríkið, jafnvel þó ganga þurfi á eigið fé samtakanna. Framlag ríkisins er því aðeins 8,5 milljónir króna fyrir árið 2010. Á árinu 2009 voru greiddar 12 milljónir króna fyrir sama verkefni. Varlega áætlað kostar það samtökin um 20 milljónir króna að reka þessa þjónustu, með rúmlega 4 stöðugildi.

Mikilvæg þjónusta
Neytendasamtökin vilja halda því fram að með rekstri leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu hafi samtökin niðurgreitt þessa samfélagslegu þjónustu, þar sem hún kostar mun meira en það sem ríkið leggur til. Árgjöld félagsmanna standa undir meira en helming kostnaðar við reksturinn. Þjónustan er vel þekkt bæði af neytendum og seljendum og byggir á áratuga reynslu samtakanna. Hluti af þjónustunni er evrópsk neytendaaðstoð – ENA, þar sem Íslendingum er gert kleift að leita réttar síns við neytendakaup innan ESB og neytendur í ESB ríkjum geta leitað aðstoðar vegna kaupa hjá íslenskum seljendum. Kostnaðurinn við rekstur ENA skiptist til helminga á milli ESB og ríkisins. Hluti ríkisins er 2 milljónir króna sem er innifalinn í þjónustusamningnum.
Aðkoma fleiri ráðuneyta

Með því að sameina Neytendastofu og talsmann neytenda er ljóst að spara má útgjöld hins opinbera. Það er að mati Neytendasamtakanna eðlilegt að hluti þess fjármagns sem þarna myndi sparast sé nýtt til að styrkja starfsemi Neytendastofu og Neytendasamtakanna og þá ekki síst hvað varðar leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu samtakanna. Neytendamál falla nú undir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, eftir flutning málaflokksins frá viðskiptaráðuneytinu í ársbyrjun 2009. Neytendamál falla í raun undir flest öll ráðuneyti, eins breiður málaflokkur og neytendamálin eru. Það þrengir mjög stakk samtakanna að vera undir því ráðuneyti komið sem hefur aðra mjög stóra málaflokka á herðum sér eins og dóms- og fangelsismál og lítið svigrúm til að mæta þörfum leiðbeininga- og kvörtunarþjónustunnar. Því væri eðlilegt að fleiri ráðuneyti kæmu að þjónustusamningum við Neytendasamtökin, þar sem samtökin veita flestum öðrum ráðuneytum þjónustu með setu í starfshópum og nefndum og hafa innsýn í öll málefni er varða neytendur.

Ruglingur á nöfnum
Neytendastofa, Neytendasamtökin, talsmaður neytenda – hvert eiga neytendur að snúa sér? Það er ekki óeðlilegt að neytendur ruglist á þessum nöfnum enda keimlík.  Neytendasamtökin sem hafa starfað í 57 ár finna fyrir því og ekki bara hjá neytendum, heldur hjá fjölmiðlum og jafnvel stjórnmálamönnum. Það voru mistök hjá Neytendasamtökunum að berjast ekki harðar í upphafi gegn nafngift nýrrar stofnunar. En það hefur sýnt sig á þessum 5 árum sem Neytendastofa og talsmaður neytenda hafa starfað að neytendur ruglast á nöfnum og Neytendasamtökin þurfa oft á dag að leiðrétta misskilning. Einnig má velta því fyrir sér hvort líta megi á opinberan starfsmann (talsmann neytenda) sem talsmann fyrir sérstakan hagsmunahóp, í þessu tilviki neytendur. Neytendasamtökin hafa alltaf litið á það sem hlutverk sitt að tala máli neytenda. Því vilja Neytendasamtökin ítreka að með sameiningu stofnana og um leið úrbótum á fyrirkomulagi neytendamála, ætti ný sameinuð stofnun að heita Umboðsmaður neytenda, í samræmi við frumvarp félagsmálaráðherra um Umboðsmann skuldara.