Gjafabréf Icelandair

Fimmtudagur, 25. ágúst 2011

Gilda gjafabréf Icelandair sem greiðsla upp í skatta eða gjöld?

Að undanförnu hefur Neytendasamtökunum borist fjöldi fyrirspurna er varða gjafabréf frá Icelandair. Margir hafa staðið í þeirri meiningu að gjafabréf Icelandair gildi ekki sem greiðsla upp í skatta eða gjöld. Við frekari eftirgrennslan samtakanna kom eftirfarandi í ljós:

Ef keypt er gjafabréf beint af Icelandair fyrir ákveðna upphæð gildir öll fjárhæð bréfsins upp í fargjaldið ásamt sköttum og gjöldum. Það er því ekki rétt að gjafabréf sem einstaklingur kaupir t.a.m. í gegnum síðu Icelandair gildi ekki sem greiðsla upp í skatta og gjöld, enda væri slíkt að mati Neytendasamtakanna óeðlilegt.

Ef hins vegar gjafabréf frá Icelandair er keypt í gegnum stéttarfélag eða bréfið unnið í happdrætti eða fengið með öðrum hætti, eru umræddar takmarkanir á bréfinu, þ.e. að það gildi ekki upp í skatta og gjöld, enda komi þessar takmarkanir fram á bréfinu og/eða ættu því að vera kynntar kaupanda af viðkomandi stéttarfélagi.