Gjaldþrota flugfélag

Miðvikudagur, 29. október 2008

Ég á flugmiða hjá gjaldþrota flugfélagi, hver er staða mín?

Svona er staðan ef þú hefur verslað við gjaldþrota flugfélag:

Hafir þú keypt flugmiða, ert þú fljótt á litið illa settur. Það eru engar bætur að hafa og þú hefur tapað kaupverðinu. Ef þú ert staddur erlendis þarftu sjálfur að sjá um flutning heim. Það eru þó einhver kreditkortafyrirtæki sem geta kannski afturkallað greiðslu. Ef þú hefur greitt með kreditkorti, hafðu þá samband við kortafyrirtækið og kannaðu möguleikana.

Hafir þú keypt ferð með flugi og hóteli af heimasíðu fyrirtækisins er ferðin mjög sennilega skipulögð af ferðaskrifstofu. Hafðu samband við hana.

Hafir þú keypt pakkaferð (alferð) þar sem hið gjaldþrota flugfélag sér um flugið, skaltu hafa samband við fyrirtækið sem seldi þér ferðina – það á að aðstoða þig. Verði ferðaskrifstofa gjaldþrota á tryggingarskylda vegna alferðar að bæta tapið – bæði fyrir flug sem fellur niður og kostnaðar vegna heimferðar ef þú ert staddur erlendis.

Ef þú þarft að kaupa ferð núna og vilt vera viss um að fá tjónið bætt ef eitthvað fer úrskeiðis, kauptu þá pakkaferð (alferð). Það nægir að þú bókir eina gistingu – þá fellur ferðin undir tryggingarskyldu vegna alferða.

Sjá nánar lög um skipan ferðamála