Góðar fréttir fyrir farsímanotendur

Föstudagur, 17. mars 2017 - 13:15

Farsímanotkun milli landa Evrópu var lengi vel mjög dýr. Svo dýr reyndar að Evrópusambandið ákvað að grípa til sinna ráða því ljóst var að markaðurinn réð ekki við verkefnið. Til að tryggja hagsmuni neytenda var sett þak á þann kostnað sem fjarskiptafyrirtækin máttu inniheimta þegar neytendur nota farsímaþjónustu á milli landa Evrópu. Þetta þak hefur farið stiglækkandi frá árinu 2007.

Nú hefur skrefið verið stigið til fulls og svokölluð reikigjöld munu heyra sögunni til frá og með júní á þessu ári. Notendur munu því greiða sama gjald þegar þeir hringja milli landa og þeir gera í sínu heimalandi. Þetta gildir um öll lönd Evrópusambandsins og lönd á evrópska efnahagssvæðinu. Fjarskiptafyrirtækjunum verður þó heimilt að innheimta gjald fyrir ákveðna þjónustu en á því verður þak.

Nánar má lesa um þessar breytingar á heimasíðu Póst- og Fjarskiptastofnunar hér og á upplýsingasíðu ESB fyrir neytendur um farsímanotkun milli landa í Evrópu hér.

 

Ef ferðast er til landa utan ESB er þó réttara að hafa varann á. Neytendasamtökin hafa tekið saman nokkur góð ráð til að takmarka símakostnað í útlöndum:

  • Hafðu samband við fjarskiptafyrirtækið þitt áður en þú leggur af stað í ferðalög. Sum fyrirtæki bjóða sérstakar lausnir varðandi farsíma- og gagnamagnsnotkun í útlöndum.
  • Ef fyrirhugað er að dvelja lengi í sama landinu, eða ferðast oft til sama lands, getur verið ráðlegt að kaupa símakort í því landi. Að vísu færðu annað símanúmer, en það getur borgað sig til lengri tíma litið.
  • Slökktu á gagnareiki (e. data roaming) í símanum áður en þú ferð frá Íslandi. Ef snjallsími er stilltur á sjálfvirkt gagnareiki mun hann leitast eftir að tengjast um leið og þú lendir á áfangastað og getur þá nýtt sér gagnamagn án þess að þú gerir þér grein fyrir því.
  • Ef þú vilt nota netið mikið í símanum skaltu reyna að tengjast ókeypis þráðlausum heitum reitum (e. Wi-Fi hotspots) í stað þess að tengjast í gegnum farsímatenginguna. Þetta er sérstaklega ráðlegt þegar sótt eru gögn sem krefjast mikils gagnamagns, líkt og að ná í kort eða skoða samfélagsmiðla í miklu magni.
  • Ef nauðsynlegt er að nýta sér farsímatengingu til að skoða netið er gott að forðast gagnamagnsríkar athafnir, líkt og að horfa á myndbönd, hala niður tónlist og sækja stór viðhengi í tölvupósti.
  • Ef ferðast er utan EES og símtöl fara í talhólfið hjá þér er greitt fyrir tvöfalt útlandasímtal, þ.e. fyrst frá Íslandi til útlanda og síðan aftur í talhólfið á Íslandi. Þetta getur gerst jafnvel þótt það sé slökkt á símanum. Því getur verið gott ráð að slökkva á símtalsflutningi í talhólfið.
  • Í sumum löndum, t.a.m. oft í Bandaríkjunum, taka símfyrirtæki sérstakt viðbótargjald fyrir móttekin símtöl sem getur leitt til stóraukins kostnaðar við að taka á móti símtölum í viðkomandi landi. Því getur verið ráðlegt að sleppa því að svara lítilvægum símhringingum.
  • Í sumum tilvikum getur verið ódýrara að hringja stutt símtal heldur en að senda smáskilaboð fram og tilbaka. Einnar mínútu símtal ætti að koma til skila mun meiri upplýsingum en nokkur smáskilaboð.
  • Þegar kveikt er á síma erlendis mun hann líklegast sjálfkrafa tengjast þjónustuveitu sem er ekki endilega sú hagstæðasta. Kynntu þér hvaða erlend fjarskiptafyrirtæki eru hagstæðust.