Hentaði gjöfin ekki?

Fimmtudagur, 21. desember 2017 - 13:45

Skilaréttur á jólagjöfum

Algengt er að fólk hafi samband við Neytendasamtökin í kringum jólin og spyrjist fyrir um skilaréttarreglur því ekki falla allar jólagjafir í kramið.

Því er fyrst til að svara að seljendum er í raun frjálst að setja sínar eigin reglur um skilarétt á ógölluðum vörum, en þó voru settar samræmdar reglur fyrir mörgum árum sem flestar verslanir fylgja. Algengt er að fólk geti skilað vöru innan ákveðins frests sem samkvæmt reglunum er 14 dagar. Sumar verslanir setja þó skemmri frest og gera Neytendasamtökin athugasemd við það. Það er síðan neytandans að sanna að varan hafi verið keypt í viðkomandi verslun og því er mikilvægt að kaupandinn fá skilamiða á vöruna eða geymi kvittun.

Inneignarnótur á útsölu

Það flækir málin þegar útsölur byrja fljótlega eftir jól en sú meginregla hefur myndast að viðskiptavinur á rétt á að fá inneignarnótu fyrir fullu andvirði vörunnar en verslunin getur þá sett þá kröfu að inneignarnótan gildi ekki á útsölu. Einhver dæmi eru um að seljendur neiti að taka við eldri inneignarnótum á útsölum og jafnvel gjafabréfum en erfitt er að sjá nokkur rök fyrir því.

Jólagjafir keyptar í Costco

Costco hefur öðruvísi reglur um skilarétt en gengur og gerist. Verslunin greiðir út vörur sem er skilað og ef vara er keypt með kreditkorti er andvirðið lagt inn á kreditkort greiðanda. Vilji neytandi skila gjöf sem keypt er í Costco þarf viðkomandi að gefa upp aðildarnúmer greiðanda vörunnar og hafi gjöfin verið greidd með kreditkorki fer andvirðið inn á reikning gefanda eins og áður sagði.

Það er reynsla Neytendasamtakanna að flestar verslanir geri sitt best til að koma á móts við viðskiptavini sína sem vilja skila og skipta. Lendi neytendur hins vegar í vanda eru þeir hvattir til að leita aðstoðar samtakanna.