Hópútboð - rafmagn

Niðurstaða hópútboðsins

Frestur raforkusala til að senda inn tilboð er runninn út. Áhugi raforkusala á útboðinu var enginn. Aðeins eitt tilboð barst og það tilboð reyndist ófullnægjandi. Sjá frétt: Óvirk samkeppni á raforkumarkaði

 


Tilboð til félagsmanna

Neytendasamtökin bjóða félagsmönnum að vera með í hópútboði um kaup á rafmagni til heimilisnota. Þeir sem ekki eru félagsmenn geta skráð sig í samtökin og um leið skráð sig í hópútboðið. Hugmyndin er sú að þeir sem skrá sig til þátttöku gefi um leið umboð til Neytendasamtakanna um að verða færðir í viðskipti til þess raforkusala sem býður best. Ef lægsta tilboð telst ekki viðunandi verður engu tilboði tekið. Hugsanlega er rafmagnsnotkunin ekki það mikil að það lækki kostnað sem munar um t.d. árgjald í samtökunum (5.400 kr.) en því meiri notkun því meiri sparnaður. Ekki er gerð krafa um lágmarksfjölda þátttakenda. Skilmálarnir verða þeir sömu og á almennum markaði, m.a. mánaðar uppsagnarfrestur, og haft verður samband við notandann til að lesa af mæli vegna flutnings milli fyrirtækja.

Tilraun til að lækka verð til neytenda

Hagvangur hefur umsjón með útboðinu. Fulltrúar þeirra hafa áralanga reynslu í að bjóða út ýmsa þjónustu, m.a. rafmagn, fyrir fyrirtæki til að hagræða í rekstri. Þegar tilboð þeirra um hópútboð neytenda barst til samtakanna fór það til skoðunar hjá starfsmönnum, stjórn og starfshópi. Ýmsir voru efins um að það myndi skila einhverju í buddu neytenda; það ætti frekar að bjóða út aðra þjónustu og vörukaup sem hefðu meiri áhrif á heimilisreksturinn. Niðurstaðan var þó sú að þetta væri tilraunarinnar virði og að þörf væri á að hrista aðeins upp í samkeppninni á þessum fákeppnismarkaði. Einhvers staðar verði að byrja og sala á rafmagni er ekki eins flókin og fjarskipta- eða fjármálaþjónusta. Ef þessi tilraun heppnast væri næsta skref að framkvæma hópútboð á öðrum neytendamörkuðum.

Eru Neytendasamtökin vilhöll einum orkasala umfram annan?

Nei,  allir raforkusalar fá boð um að taka þátt í útboðinu og besta tilboði verður tekið. Allt er uppi á borði og útboðslýsingin er aðgengileg hér á síðunni. Ef tilraunin tekst og annað útboð verður auglýst, t.d. að ári, fá allir raforkusalar aftur að bjóða í þessi viðskipti og lægsta tilboðinu verður þá að sjálfsögðu tekið.

Hverjir hagnast á útboðinu?

Neytendasamtökin fá ekkert greitt fyrir sína aðkomu nema vonandi með fjölgun félagsmanna.  Hagvangur fær 2% af viðskiptunum í umsýslugjald greitt frá raforkusalanum sem samið verður við.  Útboðið snýst um að veita félagsmönnum afslátt af gjaldskrá raforkusalans og lækka þannig raforkukostnað sinn.

Er ég bundin í viðskipti við raforkuseljandann?

Þú getur alltaf hætt viðskiptum og flutt þig annað með eins mánaðar fyrirvara. Sömu skilmálar gilda rétt eins og almennir skilmálar raforkuseljenda.

Hver er gildistími útboðsins?

Samningstími skal vera eitt ár 1. janúar til 31. desember 2016 og framlengjast um eitt ár í senn verði honum ekki sagt upp fyrir október ár hvert. Hækki verðskrá þess sem samið verður við hlutfallslega meira en einhvers annars sem þátt tekur í útboðinu er uppsögn samnings heimil með mánaðar fyrirvara

Hvað geri ég til að taka þátt í hópútboðinu?

Til að geta tekið þátt þarftu að vera félagsmaður í Neytendasamtökunum.  Ef þú ert félagi í NS, sendu okkur upplýsingar á þessa slóð þar sem fram kemur kennitala þín og að viðkomandi veiti Neytendasamtökunum umboð til að flytja viðskiptin sé þess þörf: Fyrirspurn

Viltu gerast félagsmaður og taka þátt í hópútboði? Skráðu þig þá hér Við munum síðan hafa samband við þig þegar við höfum skráð þig í félagatalið: Félagaskráning

 


Raforkumarkaðurinn

Árið 2003 var sala á rafmagni gefin frjáls í samræmi við tilskipun frá ESB en þannig átti að ríkja samkeppni á raforkumarkaði hér á landi. Það á þó bara við um orkuhlutann; dreifing og flutningur er enn bundinn veitunni sem er þar sem notkunin fer fram og fer því bara eftir búsetu. Á þeim tólf árum síðan orkulögin tóku gildi er tæplega hægt að segja að samkeppni hafi ríkt á þessum markaði og afskaplega lítill munur er á verði milli orkusölufyrirtækja. Þegar kostnaður fyrir greiðsluseðla er tekinn inn í dæmið* er sparnaðurinn svo jafnvel farinn fyrir bí.

Það hefur lengi verið talað um að raforkuverð á Íslandi sé ekki stór liður í heimilisbókhaldinu og að það sé lágt miðað við önnur lönd. Líkur eru þó á að rafmagn eigi eftir að hækka mikið í framtíðinni og nálgast raforkuverð í Evrópu með tilkomu sæstrengs og jafnvel vegna umhverfismála.

Verð á kWh skv. gjaldskrá í október 2015

HS orka 6,91
Fallorka 6,67
Orkubú Vestfjarða 6,61
Orka náttúrunnar 6,86
Orkusalan 6,89

Munur á hæsta og lægsta verði: 4,54%
Algeng ársnotkun heimilis skv. Orkusetur.is:  5000 kWH

 

Ítarefni: