Hvaða rétt á ég þegar ég kaupi vöru á útsölu?

mánudagur, 23. maí 2016

Reglur um gallaðar vörur eru þær sömu, hvort sem vara er seld fullu verði eða á útsölu. Þegar kemur að réttinum til að kvarta vegna galla og krefjast úrbóta eru réttindi neytenda því þau sömu og seljandi getur ekki „afsakað“ galla með því að vara hafi verið svo ódýr. Hafi verðlækkun hins vegar verið vegna galla og það tekið fram við söluna, að um t.d. verðlækkun vegna útlitsgalla sé að ræða, þá er ekki hægt að krefjast úrbóta vegna þess galla síðar meir. Hvað varðar skil á ógölluðum vörum þá er engin skylda á verslun að taka við ógallaðri vöru af því kaupandann langar ekki lengur í hana, heldur gilda um skilarétt reglur sem verslanir setja sér sjálfar. Fyrir kaup er gott að kynna sér reglur verslunarinnar en almenna reglan er sú að verslanir heimila engin skil á útsöluvörum. Sé um netverslun að ræða gilda svo sérstakar reglur um vöruskil, en þegar vara er keypt í gegnum netið hafa neytendur fjórtán daga frá afhendingu til að hætta við kaupin. Ítarlegar upplýsingar um netverslun er að finna á heimasíðu ECC, www.eccisland.is.