Hvaða skjöl þarf að útbúa við bifreiðaviðskipti?

Miðvikudagur, 28. september 2016

Þegar bifreiðaviðskipti eru stunduð er vanalega gerður samningur sem inniheldur bæði kaupsamning og afsal, í einu og sama skjalinu. Þetta er gert til þess að tryggja sönnun þess að viðskiptin hafi átt sér stað. Í kjölfarið þurfa eigendaskiptin að vera tilkynnt til Samgöngustofu. Ef viðskiptin fara í gegnum bifreiðaumboð eða eru gerð með aðkomu bílasölu þá er séð um þessi skjöl fyrir aðila en ef þeir sjá sjálfir um söluna á þetta til að gleymast.

Engin lögformleg skylda er þó til að útbúa og undirrita kaupsamning eða afsal en það er farsælast fyrir báða aðila til að tryggja stöðu þeirra. Þannig kemur til dæmis kaupverð eða ástand ökutækisins við söluna hvergi fram ef ekki er fyrir að fara kaupsamningi og getur það valdið vandræðum.

Það er seljanda í hag að tilkynna um eigendaskipti sem fyrst þar sem hann ber ábyrgð á bifreiðagjöldum og tryggingum þar til þau hafa verið tilkynnt til Samgöngustofu.