Inneignarnótur og útsölur

Miðvikudagur, 29. desember 2010

 

Hver er gildistími inneignarnóta og má nota þær á útsölum?

Inneignarnótur falla undir lög um almennar kröfur og gilda því í fjögur ár nema annað sé umsamið eða tekið fram á nótunni. Í verklagsreglum um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur, sem verslunum er valfrjálst að fara eftir, kemur fram að ekki ætti að takmarka gildistímann skemur en eitt ár en Neytendasamtökin myndu kjósa að gildistíminn sé ekkert takmarkaður. Þá kemur fram að ekki var talið sanngjarnt ef inneignarnótur takmarkist við eina ákveðna vörutegund eða vöruflokk.

Í verklagsreglunum kemur fram að talið var ósanngjarnt fyrir seljandann ef engar takmarkanir eru á notkun inneignarnótu á útsölu en eðlilegt væri að þetta atriði sé umsemjanlegt. Það virðist þó vera afar algengt að notkun inneignarnóta sé alfarið bönnuð á útsölum með engum undantekningum. Vilji neytandi ákveðna vöru á útsölu og er hræddur um að hún verði ekki til þegar útsölu lýkur, er ráð að reyna að semja um að fá að nota inneignarnótuna og borga þá upphaflegt verð fyrir vöruna áður en hún fór útsölu. Þá er rétt að minnast á að eftir 6 vikur á útsöluverði, telst útsöluverð vera orðið almennt verð og lækka þarf vöruna aftur ef hún á enn að vera á útsölu. Ef seljandi heldur fram að útsala sé enn í gangi eftir 6 vikur en lækkar ekki verðið, skal tilkynna það til Neytendastofu sem fer með eftirlit á útsölum.