Innflutningstakmarkanir á fersku kjöti ólögmætar

Miðvikudagur, 15. nóvember 2017 - 9:30

EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslensk löggjöf feli í sér innflutningstakmarkanir á landbúnaðarvörum, svo sem á fersku kjöti og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Samkvæmt dóminum er stjórnvöldum ekki stætt á því að skylda innflytjendur til að leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar vegna innflutnings á tilteknum landbúnaðarvörum. Í raun sé slík krafa ekkert annað en viðskiptahindrun sem er í andstöðu við EES samninginn.

Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina kallað eftir auknu frelsi á innflutningi á landbúnaðarvörum og talið stjórnvöld fara offari í þeirri verndarstefnu sem rekin hefur verið. Ljóst er að breyta þarf lögum til að þau samræmist þeim skuldbindinum sem við höfum undirgengist með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Stjórnvöld hljóta að bregðast skjótt og hratt við þessari niðurstöðu. Aukinn innflutningur á fersku kjöti og ógerilsneyddum ostum mun auka vöruúrval sem er mjög jákvætt fyrir neytendur. Að sama skapi er mikilvægt að merkingar séu skýrar, enda eiga neytendur rétt á að vita um uppruna matvæla.

Málið hófst með kvörtun sem Samtök verslunar og þjónustu sendu árið 2011 til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Sjá frétt frá Samtökum verslunar og þjónustu.