Jólagjöfin - algengar kvartanir eftir jólin

Föstudagur, 9. desember 2016 - 9:00

Þegar keypt er jólagjöf er því miður alls ekki öruggt að viðtakanda líki gjöfin. Til að tryggja að gjöfin nýtist, jafnvel þó þiggjandi vilji skila eða skipta, er mikilvægt að seljandi taki vel á móti honum – og gjöfinni. Hér verður stiklað á stóru um helstu vandamál sem upp koma í tengslum við skil og skipti á jólagjöfum.

Fyrir kaup á jólagjöfum er mikilvægt að skoða hvað þarf að hafa í huga til að allir séu sáttir.

Skilaréttur
Seljendum er frjálst að móta sínar eigin reglur um skilarétt á ógölluðum vörum og mega þá m.a. neita að taka við skilavörum. Við kaup á jólagjöfum er gott að spyrja hvort hægt sé að skila vörum, hvað skilafrestur er langur og fá þess til gerðan skilamiða svo hægt sé að skila vörunni án nótu. Nokkrar verslanir endurgreiða vörur innan ákveðins tíma frá kaupum og það er minni áhætta að versla við þær en verslanir sem sett hafa flóknar og hindrandi skilareglur.

Gjafabréf
Oft er kvartað vegna þess að seljendur meina viðskiptavinum að nýta gjafabréf vegna þess að gildistíminn sé útrunnin. Neytendasamtökin telja að gildistíminn ætti að vera fjögur ár sem er almennur fyrningarfrestur á kröfum. Mikilvægt er að kanna alltaf gildistíma gjafabréfa og kaupa ekki gjafabréf með stuttum gildistíma. Það er mikilvægt að seljendur átti sig á að kaupandinn hefur afhent seljanda pening sem hann geymir vaxtalaust þar til þjónusta eða vara er tekin út. Það er léleg þjónusta að reyna að komast hjá því að neytandinn geti nýtt sér bréfið. Þá er algengt að í kjölfar gjaldþrots eða eigendaskipta sitji handhafar gjafabréfa með ónýta gjöf í höndunum, jafnvel þó bréfið hafi verið keypt viku fyrr. Handhafi gjafabréfs ætti að nýta það sem allra fyrst svo ekki komi til vandamála seinna meir.

Inneignarnótur
Flestar verslanir á Íslandi veita eingöngu inneignarnótur við vöruskil. Þær eru almennar kröfur og gilda því í fjögur ár nema annað sé umsamið eða tekið fram á nótunni. Kvartanir varðandi inneignarnótur snúast oftast um að nóturnar eru útrunnar, týndar eða gilda ekki á útsölum. Auk þess er algengt að ekki takist að leysa út inneignarnótu í kjölfar gjaldþrots eða eigendaskipta. Það er mikilvægt að neytendur líti á inneignarnótu sem vaxtalausa peningainneign hjá verslun og reyni að nota hana sem allra fyrst.