Kafli 1. Inngangur

Í þessari ritgerð er reifuð saga Neytendasamtakanna sem urðu 50 ára á árinu 2003. Sögu samtakanna er skipt í átta meginkafla en síðan er leitast við að gera helstu málaflokkum samtakanna skil á hverjum tíma sem og helstu viðburðum í sögu þeirra fyrir hvert tímabil.

Annar kaflinn fjallar um Svein Ásgeirsson sem var frumkvöðull að stofnun samtakanna og brautryðjandi í neytendamálum hér á landi. Sá kafli fjallar auk þess um stofnun samtakanna og fyrstu fimmtán ár þeirra þegar Sveinn var nánast alls ráðandi í samtökunum, um starfsemi samtakanna á þeim árum, alþjóðlegt samstarf þeirra og helstu baráttumál.

Sumarið 1968 var haldinn sögufrægasti aðalfundur Neytendasamtakanna. Sveinn missti þá tögl og hagldir í samtökunum en við stjórnartaumunum tóku ungir menn, sumir róttækir. Samtökin losnuðu þá úr þeim viðjum að vera nánast alfarið stjórnað af einum og sama manninum. Hins vegar höfðu hinir nýju stjórnarherrar vægast sagt mjög mismikinn áhuga og skilning á málefnum samtakanna. Við þessar aðstæður stóðu samtökin á afdrifaríkum tímamótum. Þau hefðu vel getað verið lögð niður eða úr þeim sprottið ný og pólitísk neytendasamtök hægri manna. En hvorugt gerðist. Þess í stað var eftir rúmt ár mynduð stjórn manna úr öllum stjórnmálaflokkum. Þriðji kaflinn fjallar um þessar dramatísku sviptingar þar sem skiptust á tímabil lægða og uppgangs, viðleitnina við að koma á félagslegum stöðugleika og pólitískri breidd í forystusveit samtakanna, og þar með fyrstu skrefin að hinni þverpólitísku afstöðu og aðferðafræði sem samtökin hafa síðan fylgt lengst af.

Fjórði kaflinn fjallar um níu ára tímabil, 1973–1982. Í upphafi þess tímabils hafði samtökunum tekist að festa sig í sessi sem þverpólitísk og almenn samtök neytenda. Auk þess hafði félagsmönnum þeirra fjölgað aftur umtalsvert eftir fylgishrun vegna sviptinganna 1968. En í upphafi þessa tímabils seig nokkuð á ógæfuhlið í fjármála- og rekstrarstjórnun samtakanna með þeim afleiðingum að þau urðu að draga mjög úr útgáfu sinni og annarri starfsemi. Aðhaldssamir og ábyrgir einstaklingar komu þá að stjórn samtakanna og þeim tókst á nokkrum árum að losa samtökin úr skuldunum og auka aftur starfsemi þeirra án þess að stofna til nýrra skulda. En jafnframt fækkaði félagsmönnum vegna lítillar starfsemi samtakanna framan af. Veruleg kaflaskil verða hjá Neytendasamtökunum 1982. Þá eru samþykktar víðtækar lagabreytingar sem breyta samtökunum úr meira eða minna staðbundnu neytendafélagi höfuðborgarsvæðisins í landssamtök neytendafélaga víðs vegar um landið. Við þessar breytingar fjölgar t.d. verulega í stjórn samtakanna. Þessar breytingar höfðu átt sér fjögurra ára aðdraganda og hófust í raun með stofnun Neytendafélags Borgarness 1978 en eru endanlega staðfestar með lagabreytingunum 1982.

Í fimmta kafla er minnst á Jón Magnússon sem var formaður samtakanna þegar þau unnu endanlegan sigur á einokun Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Þá er fjallað um Jóhannes Gunnarsson sem hefur verið formaður samtakanna lengur en nokkur annar.

Sjötti kaflinn hefst með breytingunum 1982 og fjallar svo um síðustu tuttugu árin í sögu samtakanna. Það er tími mikilla breytinga á neytendamálum Íslendinga og þar með á Neytendasamtökunum, baráttumálum þeirra og áherslum. Fjallað er um nýjar áherslur, s.s. fræðslumál og stóraukin alþjóðleg samskipti, um það hvernig samtökin verða fagleg og raunveruleg fjöldasamtök og loks um breyttar neysluvenjur þjóðarinnar og aukið vægi neytendamálefna og Neytendasamtakanna í íslenskum fjölmiðlum.

Í sjöunda kafla er gefin vísbending um hag Neytendasamtakanna á því tímabili sem þau hafa starfað.

Íslensku Neytendasamtökin eru almennt talin vera þriðju elstu neytendasamtök í heiminum. Þau eru í eðli sínu hápólitísk samtök enda snúast hugmyndir manna um almennan hag neytenda um kjarnann í hugmyndafræðilegum ágreiningi hægri- og vinstri manna, um afskipti og afskiptaleysi yfirvalda af atvinnu- og viðskiptalífi. Þegar höfð eru í huga langvarandi afskipti íslenskra stjórnmálaflokka af verkalýðsmálum og atvinnulífi og jafnframt hið hugmyndafræðilega eðli Neytendasamtakanna er engan veginn sjálfgefið að slíkum samtökum hafi tekist að starfa á þverpólitískum grunni lengst af án þess að klofna og án stöðugra afskipta stjórnmálaflokkanna. Það hefur Neytendasamtökunum samt tekist og það er líklega athyglisverðasti þátturinn í sögu þeirra. Áttundi og síðasti kaflinn fjallar um þessa staðreynd og er jafnframt tilraun til að skýra hana. Helsta niðurstaða mín er sú að samtökin hafi verið einstaklega heppin með umburðarlynda og víðsýna forystumenn, einkum þegar á reyndi. Auk þess bendi ég á þá skýringu að stjórnmálaflokkarnir hafi með verkum sínum oft lítt fylgt þeirri hugmyndafræði sem þeir hafa sagst standa fyrir.