Kafli 2. Fyrstu fimmtán árin

Ekki verður svo vikið að stofnun Neytendasamtakanna að þar komi ekki mest við sögu óumdeildur brautryðjandi neytendaverndar hér á landi, Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur. Hann hafði frumkvæði að stofnun Neytendasamtakanna og bar hitann og þungann af starfsemi þeirra fyrstu fimmtán árin.

2.1 Brautryðjandinn

Sveinn Gunnar Ásgeirsson fæddist í Reykjavík 17. júlí 1925. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1944, fyrrihluta prófi í lögfræði við HÍ 1945–1950, stundaði nám við Stokkhólmsháskóla frá 1945 og lauk þaðan fil.kand. prófi í þjóðhagfræði, bókmenntasögu, heimspeki og listasögu 1950. Sveinn var fulltrúi borgarstjórans í Reykjavík 1950–1963 og formaður og framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna 1953–1968. Auk þess var hann ritstjóri Neytendablaðsins á þessu tímabili. Eftir það starfaði hann sjálfstætt, einkum að ritstörfum.

Sveinn var fjölmenntaður og fjölhæfur maður. Hann hóf að sinna blaðamennsku á námsárunum, varð landsþekktur sem stjórnandi einhverra vinsælustu skemmtiþátta í sögu Ríkisútvarpsins á árunum 1952–1960, var vel ritfær, afkastamikill rithöfundur um margvísleg efni, þýddi ýmis erlend rit og sinnti útgáfumálum. Hann var hægur maður og ljúfur í viðkynningu, vel að sér um margvísleg málefni og eldhugi þegar því var að skipta, einkum hvað varðaði neytendamál og málefni blindra. Hann var sæmdur Gulllampanum, æðsta heiðursmerki Blindrafélagsins 1985, og er eini heiðursfélagi Neytendasamtakanna, frá 1986. Sveinn lést eftir langvarandi og erfið veikindi 7. júní 2002.

2.2 Stofnun Neytendasamtakanna

Stofnun Neytendasamtakanna á Íslandi ber að rekja til tveggja útvarpserinda sem Sveinn Ásgeirsson flutti í Ríkisútvarpinu fyrrihluta vetrar 1952–1953. Þar ræddi hann almennt um bága stöðu íslenskra neytenda og tók fjölda dæma af ýmsu sem betur mætti fara í þeim efnum. Hugmyndin um hinn almenna neytenda sem tiltekinn hagsmunahóp var þá óþekkt hér á landi en dæmin sem Sveinn tók úr íslenskum hversdagsleika könnuðust flestir við og vöktu erindin verðskuldaða athygli. Góðkunningi Sveins, Jóhann Sæmundsson, tryggingayfirlæknir og fyrrverandi félagsmálaráðherra, hvatti hann eindregið til að stofna neytendasamtök sem fyrst. Þeir fengu til liðs við sig Jónínu Guðmundsdóttur, þá formann Húsmæðrafélags Reykjavíkur, og boðuðu þau þrjú til stofnfundar í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll þann 26. janúar 1953. Fundurinn var vel sóttur, tóku margir til máls og var samþykkt að lýsa yfir stofnun samtakanna og kjósa bráðabirgðastjórn sem skyldi undirbúa framhaldsstofnfund. Á framhaldsstofnfundinum sem haldinn var 23. mars voru samþykkt lög Neytendasamtakanna og kosin tuttugu og fimm manna stjórn.

2.3 Starfsemin fyrstu árin

Hugmyndin með svo fjölmennari stjórn var að fá sem flesta valinkunna einstaklinga til að ljá málefninu lið strax frá upphafi. En fjölmenn stjórn var þung í vöfum og var því kjörin þriggja manna framkvæmdanefnd á fyrsta stjórnarfundinum. Sveinn Ásgeirsson var kjörinn formaður samtakanna og gegndi hann formennsku í fimmtán ár eins og áður sagði. Auk þess var hann lengst af framkvæmdastjóri þeirra á tímabilinu. Á fyrsta stjórnarfundi samtakanna var ákveðið að ráðast sem fyrst í útgáfu málgagns fyrir samtökin en fyrsta málið sem samtökin beittu sér fyrir var endurskoðun á reglum um afgreiðslutíma sölubúða.
Loks var ákveðið eftir nokkrar umræður að árgjald félagsmanna yrði fimmtán krónur, þó einnig hefði komið fram tillaga um hærra árgjald.

Fljótlega gáfu samtökin út Neytendablaðið, prentað í dagblaðsbroti og komu út þrjú tölublöð á því formi. Þessi frumraun í útgáfumálum varð engin gróðaleið fyrir samtökin enda fyrst og fremst hugsuð sem almenn kynningarstarfsemi. Þá hófu samtökin fljótlega útgáfu á ýmiss konar leiðbeiningarbæklingum sem áttu eftir að verða veigamikill þáttur í starfsemi þeirra á næstu árum.

Allt frá upphafi lýstu samtökin því yfir að það væri m.a. hlutverk þeirra að upplýsa og aðstoða almenna neytendur sem teldu sig órétti beitta í viðskiptum. Fljótlega tók fólk því að hringja heim til formanns samtakanna með margvíslegar umkvartanir. Þegar hringingum fjölgaði dag frá degi varð sýnt að samtökin yrðu að opna skrifstofu. Einhverjar vomur voru á sumum stjórnarmönnum um fjárhagslegt bolmagn til slíkrar ráðstöfunar en það varð þó úr að samtökin opnuðu skrifstofu að Bankastræti 7 í nóvember á stofnárinu.

Fljótlega eftir að skrifstofan var opnuð kom þangað lögfræðingur sem var til viðtals á virkum dögum, tvo til þrjá tíma á dag. Sá var Birgir Ásgeirsson, þá lögmaður hjá Reykjavíkurborg og bróðir formannsins.  Sýndi hann mikinn dugnað og samviskusemi í starfi alla tíð.

Strax á stofnárinu höfðu verkin verið látin tala. Í byrjun vetrar 1953, ári eftir að Sveinn hélt útvarpserindin, fór því ekkert á milli mála að Neytendasamtökin voru mætt til leiks í íslensku samfélagi.

2.4 Alþjóðlegt samstarf

Sveinn var heimsborgari. Þess nutu Neytendasamtökin í alþjóðlegum samskiptum. Hann hafði kynnt sér starfsemi Rannsóknarstofnunar heimilanna í Stokkhólmi og sumarið 1952 hitti hann að máli Lis Groes, formann Neytendaráðs danskra húsmæðra. Sveinn sat fund í París sem Efnahagssamvinnustofnunin hélt fulltrúum neytendaráða aðildarríkjanna.

Sá fundur samþykkti ályktun um stofnun alþjóðlegra samtaka neytenda. Stofnfundur Alþjóðasamtakanna var síðan haldinn í Haag 1960.

Á þeim fundi kom fram að Neytendasamtökin á Íslandi eru þau þriðju elstu í heimi sem eiginleg neytendasamtök. Elstu samtökin eru þau bandarísku, stofnuð 1936 en næst elstu samtökin eru frönsk. Var fulltrúa Íslands sýndur sérstakur sómi á stofnfundinum enda gat Sveinn miðlað dýrmætri reynslu. Þá þótti einstakt að íslensku Neytendasamtökin skyldu veita félögum sínum lögfræðiaðstoð þeim að kostnaðarlausu.

Skömmu eftir stofnfund Alþjóðasamtakanna tók fulltrúi Íslands þátt í OECD-ráðstefnu í París sem fjallaði einkum um vörumerkingar. Hann kynntist auk þess Colston W. Warne, forseta bandarísku neytendasamtakanna, sem sendi íslensku samtökunum árbók sína í 3000 eintökum, þrjú ár í röð. Framkvæmdastjórn Alþjóðasamtakanna hélt fund hér á landi til undirbúnings alþjóðaþingi neytenda í Ísrael sama ár. Var formaður íslensku samtakanna einn forseta þingsins. Loks má svo geta um fund Norrænu neytendanefndarinnar í Alþingishúsinu 1967.

Alþjóðleg samskipti af þessum toga virðast sjálfsögð á okkar tímum en voru mun meira fyrirtæki fyrir fjórum áratugum, löngu fyrir daga faxtækja og tölvupósts. Utanlandsferðir voru þá mun fátíðari en síðar varð. Það er því eftirtektarvert hvernig íslensku Neytendasamtökin urðu virkir þátttakendur strax í upphafi og voru viðurkennd sem þau þriðju elstu í veröldinni.

2.5 Helstu baráttumál samtakanna 1953–1968

Ýmis helstu baráttumál Neytendasamtakanna fyrstu árin endurspegla að nokkru leyti það viðskiptaumhverfi hafta og einokunar sem hér var við lýði fram undir 1960. Í baráttunni fyrir rýmri afgreiðslutíma í Reykjavík þurftu þau að takast á við borgarstjórn. Sú barátta átti eftir að verða lengri en menn grunaði í fyrstu.

Annað erfitt stríð var háð vegna einokunar á framleiðslu, innflutningi, flokkun, pökkun og dreifingu á landbúnaðarafurðum. Skipti þar mestu áratuga viðureign samtakanna við Grænmetisverslun landbúnaðarins. Sú stofnun þverbraut margsinnis reglugerðir um flokkun kartaflna. Í skjóli einokunar sendi hún ár eftir ár í verslanir kartöflur sem gátu vart talist skepnufóður. Neytendasamtökin kærðu Grænmetisverslunina fyrir þetta framferði. Einnig kærðu samtökin Osta- og smjörsöluna fyrir að auðkenna allt smjör sem fyrirtækið sendi á almennan markað sem gæðasmjör þó hvergi kæmi fram hvaðan smjörið kæmi eða hvort og þá eftir hvaða forsendum það væri flokkað.

Neytendasamtökin stóðu fjórum sinnum í málaferlum fyrstu fimmtán árin. Þrisvar sóttu samtökin mál til dómstóla en í fyrsta tilfellinu var samtökunum stefnt. Það mál vakti langmesta athygli enda prófsteinn á það hvort samtök af þessum toga ættu framtíð fyrir sér í íslensku samfélagi. Mál þetta kom upp 1953, var nefnt Hvile-Vask málið og snerist um athugasemd samtakanna við auglýsingu á dönsku „undra“- þvottaefni. Innflytjandi þvottaefnisins hafði staðið fyrir auglýsingaherferð í útvarpinu og kynnt efnið með eftirfarandi tillögu: „Gerið þvottadaginn að hvíldardegi! Notið Hvile Vask.“ Þetta var fyrir daga sjálfvirkra þvottavéla og því von að fólk legði við eyru. Efnafræðingar í stjórn Neytendasamtakanna efnagreindu þvottaefnið og komust að þeirri niðurstöðu að hér væri engin nýjung á ferðinni heldur þvottaefni sem innihélt óvenjumikið bleikiefni og sliti því þvottinum hraðar en ella. Neytendasamtökin sendu nú frá sér fréttatilkynningu þar sem greint var frá niðurstöðu rannsóknarinnar. Sala á þvottaefninu lagðist nánast af en innflytjandinn krafðist þess að samtökin drægju fréttatilkynninguna til baka. Því var ekki sinnt og var samtökunum þá stefnt. Neytendasamtökin töpuðu málinu fyrir sjó- og verslunardómi vorið 1957 en áfrýjuðu því til hæstaréttar, söfnuðu ítarlegri gögnum um þvottaefnið og unnu málið fyrir hæstarétti 1959. Þessi málaferli voru talsverð þolraun fyrir samtökin en auk þess mikilvægur prófsteinn á afstöðu dómstóla til neytendaverndar.

Þrátt fyrir stóru málin snerist starfsemi samtakanna ekki síður um dagleg úrlausnarefni, s.s. lögfræðiaðstoðina sem leysti vanda margra sem töldu sig órétti beitta án þess að koma þyrfti til málaferla. Þannig minntu samtökin á sig og urðu þekktari með hverju árinu. Æ oftar bar Neytendasamtökin á góma ef menn töldu að sér vegið í viðskiptum. Vægi samtakanna jókst í vitund neytenda og félagsmönnum fjölgaði ár frá ári. Þeir voru orðnir um tvö þúsund árið 1956 og ríflega fjögur þúsund í ársbyrjun 1967. Um það leyti fékk Sveinn til liðs við sig á skrifstofu samtakanna Halldór Stefánsson, dugmikinn og samviskusaman mann. Þeir skipulögðu félagaöflun á landsbyggðinni sem fjölgaði félagsmönnum í um sjö þúsund einstaklinga.